133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:34]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti að velta fyrir sér hvort hann geti ekki komið þeim breytingum sem hann vill gera á fiskveiðistjórnarkerfinu í kring með öðrum hætti en í gegnum stjórnarskrána. Það eru ábyggilega margar leiðir til að ná þeim markmiðum sem hv. þingmaður hefur í þeim efnum aðrar en að breyta stjórnarskránni. Ég held að það sé skýrt að með því að fá ákvæði af þessu tagi inn í stjórnarskrá yrði undirstrikað að auðlindir þjóðarinnar séu í þjóðareign. Það útilokar hins vegar ekki að einstaklingar eða lögaðilar geti átt réttindi sem njóta eignarréttarverndar. Það er undirstrikað í ákvæðinu að með þessu frumvarpi sé ekki ætlunin að breyta þeim réttindum. Ætlunin er ekki að auka þau og það er ekki að draga úr þeim. Það er kannski kjarni málsins.

Ég verð hins vegar að hvetja hv. þingmann til að skoða hvort hann getur náð hugmyndum sínum fram með öðrum hætti en þeim að gera stjórnarskrána að átakavelli í því sambandi.