133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:40]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er velviljaður maður og hann tók að sér í sjálfboðavinnu að útskýra afstöðu stjórnarandstöðunnar til þessa máls. Hann fór um hana mörgum orðum. Út af fyrir sig er sjálfsagt að þakka slíkt innlegg í málið. Við getum út af fyrir sig líka reynt að gera það sjálf (Gripið fram í.) sem erum í stjórnarandstöðunni.

Ég er þó á því að það dýpki þessa umræðu meira og gefi henni meira gildi að hv. þingmaður útskýri aðdraganda og undirbúning stjórnarfrumvarpsins og hversu vel menn hafi vandað til verka. Ég hef hlustað á hv. þm. Birgi Ármannsson halda margar hjartnæmar ræður um nauðsyn þess að vanda til verka þegar stjórnarskrá er breytt og ekki megi vera of mikil lausung í því, að menn þurfi að vanda sig og taka sér góðan tíma í slíkt. Ég hef hlustað á margar slíkar ræður í stjórnarskrárnefnd. Ég vil því biðja hv. þingmann um að fara yfir það með mér (Forseti hringir.) hvernig vandað var til verka í sambandi við þetta frumvarp.