133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja hið sama um hv. þingmann og hann sagði sjálfur um frumvarpið sem hér liggur undir, hann er allskýr.

Hv. þingmaður vísaði í samtal sem átt var við mig á Útvarpi Sögu og af því tilefni langar mig að rifja það upp að með dómi Hæstaréttar frá árinu 2000 er 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga skýrður þannig að hann feli í sér að úthlutun aflaheimilda myndi ekki óafturkallanlegt forræði einstakra manna fyrir þeim.

Ég vil líka vekja athygli á því að í álitsgerð prófessoranna Þorgeirs Örlygssonar og Sigurðar Líndals, sem var gerð fyrir auðlindanefnd haustið 1998, kemur fram að þeir telja að samkvæmt núgildandi lögum sé ekkert því til fyrirstöðu að innkalla úthlutaðar veiðiheimildir í áföngum á löngu tímabili.

Frú forseti. Það eru engar breytingar sem ég vil gera á núverandi stjórnkerfi fiskveiða sem ekki falla undir þetta tvennt.