133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:47]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er farinn að þreytast enda kominn á miðjan aldur og hefur kannski ekki sama úthald til svona umræðna og þeir sem yngri eru. Ég hef því ákveðið að halda ekki mjög langa ræðu um frumvarpið, honum til dýrðar. Ég sé mig samt knúinn til þess að tæpa á nokkrum atriðum sem ég tel að skipti máli.

Það er rétt (Gripið fram í.) sem hv. þm. Jóhann Ársælsson, sem hér kallar fram í, sagði í upphafi ræðu sinnar að það verkefni sem við ræðum og viðfangsefni þessa frumvarps er gríðarlega umfangsmikið, um það er engin spurning. Ákvæðið mælir fyrir um það að náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign. Þegar ákvæðið er skoðað er engin spurning að það nær til gríðarlegra hagsmuna, leyfi ég mér að segja. Allar náttúruauðlindir landsins eru undir, ekki bara fiskimiðin eins og kannski geta má af umræðunni heldur allar aðrar náttúruauðlindir og þar á ég við orkuna í landinu, vatnsföllin og hitann. (Gripið fram í.) Og hænsnin, segir hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ég er nú ekki viss um það en ég gæti nefnt dúninn og fleira, þannig að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi.

Þetta frumvarp er frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Eins og við vitum öll er stjórnarskráin grundvallarlög, mikilvægustu lög lagasafnsins sem hafa réttaráhrif eins og önnur lög. Því er mikilvægt að vandað sé til verka eins og hv. þm. Birgir Ármannsson sagði. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir því að einhver leiti réttar síns gagnvart því sem þar kemur fram einhvern tímann í náinni framtíð. Þá er mikilvægt að ákvæðið sé skýrt þannig að dómsúrlausnir framtíðarinnar séu í samræmi við yfirlýstan tilgang löggjafans.

Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því yfir í ræðu sinni, og það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að markmiðið sé tiltölulega skýrt en það verður verkefni okkar í nefndinni að kanna það og fara yfir það hvort orðalag ákvæðisins sé skothelt og í takti við vilja löggjafans. Við höfum séð ýmsar dómsúrlausnir sem hafa kannski ekki verið í samræmi við vilja löggjafa þess tíma þegar ákvæðin voru sett og leyfi ég mér að nefna t.d. Valdimarsdóminn, sem ég veit að hv. þm. Sigurjón Þórðarson þekkir vel, öryrkjadóminn og fleiri dóma. Það er mikilvægt að vandað sé til verka þannig að efnisinntakið sé skýrt og enginn velkist í vafa um það.

Eins og ég gat um áðan kveður frumvarpið á um það að náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign, en síðan segir:

„… þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr.“

Ég verð að segja það frumvarpshöfundum og flutningsmönnum til hróss að ég tel það afar gott og einkar mikilvægt að inni í ákvæðinu sé fjallað um 72. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. um vernd eignarréttarins. Það er geysilega mikilvægt þegar menn eru að fjalla um hugtök eins og þjóðareign að það sé alveg skýrt að menn ætli að standa vörð um eignarréttinn.

Ég hef tekið eftir því í umræðunni að ekki eru allir fulltrúar allra stjórnmálaflokka hér á Alþingi sammála mér um þetta eins og t.d. Samfylkingin. Ég get ekki séð að Samfylkingin beri mikla umhyggju fyrir eignarréttinum. (Gripið fram í.) Ég skildi hv. þm. Össur Skarphéðinsson í andsvari í dag á þann veg að hann teldi t.d. að þær aflaheimildir sem við höfum verið að fjalla um í tengslum við þessa umræðu njóti hreinlega ekki neinnar verndar þrátt fyrir að við vitum að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. Við vitum að útgerðarmenn hafa fjárfest í aflaheimildum fyrir hundruð milljarða. Virðingarleysi hv. þingmanns gagnvart eignarréttinum sést líka í stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálunum, þ.e. í fyrningarleiðinni sem Samfylkingin tók upp á sína arma og ætlaði að fara með inn í síðustu kosningabaráttu en heyktist síðan á því og minntist ekki á fyrningarleiðina þegar fór að líða að kosningum.

Út á hvað gengur fyrningarleiðin? Hún gengur út á það að gera upptækar aflaheimildir á einhverjum tilteknum tíma bótalaust og það er nú ekki mikil virðing fyrir eignarréttinum. Það er alltaf gaman að skoða söguna og ég er hér með úrklippu úr stefnuskrá Alþýðuflokksins sem var samþykkt á 37. flokksþingi flokksins í október 1976 og þar sér maður hvaðan þessar hugmyndir eru komnar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Skilgreining eingarréttarins í íslenskum lögum er sprottin úr þjóðfélagi og hugmyndaheimi liðins tíma og er um margt í andstöðu við þjóðarhag og hugsjónir jafnaðarstefnunnar.“

Þetta kemur berlega fram í áherslum Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hélt því fram fyrr í þessari umræðu að ég væri þeirrar skoðunar að afhenda ætti einhverjum tilteknum þjóðfélagshópum auðlindir þessa lands. Ég verð nú að nota þessa ræðu til þess að nefna það að ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að gefa eitt eða neitt, alls ekki, hvort sem það eru eigur þjóðarinnar eða ríkisins eða hvernig sem menn líta á það. Ef hv. þingmaður hefur haldið því fram að ég sé þeirrar skoðunar og ef hún er þeirrar skoðunar að útvegsmenn hafi fengið eitthvað gefins er ég ekki viss um að þeir séu sáttir við þann málflutning og þá vísa ég til þeirra fjárfestinga sem hafa átt sér stað í sjávarútvegi og þeirrar skuldsetningar sem greinin hefur farið út í vegna þeirra. Það hefur enginn fengið neitt gefins í sjávarútvegi frá því að kvótakerfinu var komið á fót. Aflaheimildirnar hafa skipt um hendur í eðlilegum viðskiptum, hv. þingmaður. En þegar menn líta eignarréttinn þessum augum er náttúrlega ekki von til þess að sátt náist um þessi mál milli stjórnmálaflokka.

Í nefndinni sem fjallar um þetta mál þurfum við að skoða inntak greinarinnar og þýðingu hugtaksins þjóðareign sem hv. þingmenn hafa í umræðunni í dag reynt að skýra með þeim hætti að um sé að ræða einhverjar tilteknar eignir sem séu í eigu þjóðarinnar og ekki megi selja. Auðvitað verður þetta rætt í nefndinni en þegar menn hafa verið að fjalla um hugtakið þjóðareign, og þá á ég við fræðimenn, hafa fyrst og fremst tveir skýringarkostir helst verið nefndir. Það er annars vegar að í hugtakinu felist stefnuyfirlýsing um fullveldisrétt ríkisvaldsins, þ.e. reglur um meðferð og nýtingu auðlinda sem ríkisvaldinu er náttúrlega heimilt að grípa til í ljósi valdheimilda sinna. Ég get ekki betur séð en að þetta frumvarp undirstriki þennan fullveldisrétt og það sé markmið flutningsmanna að styrkja hann í sessi.

Síðan eru hinir, eins og prófessor Sigurður Líndal, sem hafa haldið því fram að ákvæðið um þjóðareign sé merkingarlaust hugtak í skilningi eignarréttarins og það er í sjálfu sér ekkert skrýtið. Það er verið að tala um þjóðareign og þá hljóta menn að víkja að því hvað felst í eigninni í eignarréttarlegum skilningi. Sigurður hefur sagt: Þjóðin getur ekki átt neitt. Hann vísar til þess að heimildir þjóðarinnar sem eiganda nái ekki til þess að ráðstafa eigninni, hagnýta hana, hafa í sínum umráðum, skuldfesta hana eða vernda, ekki í eignarréttarlegum skilningi. Á mannamáli mundi þetta útleggjast þannig að ég sem hluti af þjóðinni gæti ekki á grundvelli þessa ákvæðis farið niður á Austurvöll og selt minn hlut eða veðsett hann vegna þess að ég vildi kaupa mér nýja íbúð. Þetta er í stórum dráttum grundvallarhugmyndin á bak við kenningar Sigurðar Líndals.

Ég ætla svo sem ekkert að fella neina dóma um það hvort sú kenning er rétt í eitt skipti fyrir öll. Þetta eru gild sjónarmið að mínu mati sem við þurfum að taka til skoðunar í nefndinni sem fjallar um þessi mál og við eigum að gera það með opnum huga. Ég ítreka það sem ég hef sagt, og tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni og öðrum sem hafa fjallað um málið, að þetta er stórt mál og umfangsmikið sem þarf á vandaðri og faglegri umræðu að halda í nefndinni. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að standa að slíkri umfjöllun.