133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:59]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa það fyrir hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að ég var ekki svo heppinn að heyra ræðu hæstv. umhverfisráðherra og ætla ekki frekar en hv. þm. Birgir Ármannsson að eiga orðastað við hæstv. ráðherra í gegnum millilið. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að stjórnarskrárákvæði eiga að vera skýr. Það er verkefni okkar sem munum fjalla um frumvarpið í nefndinni að kalla til sérfræðinga á þessu sviði til þess að vega það og meta hvort ákvæði frumvarpsins samræmast þeim markmiðum sem fram koma í greinargerðinni, vegna þess að ég tel að þau markmið sem þar eru sett fram séu tiltölulega skýr. Það er bara spurning hvort orðalag ákvæðisins sé það líka.