133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:05]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þótt ég deili ekki þeirri skoðun með hv. þingmanni og hans flokki að rétt sé að gera aflaheimildir í sjávarútvegi upptækar bótalaust, eins og hv. þingmaður og flokkur hans vilja gera við mismikla ánægju útgerðarmanna í Vestmannaeyjum að ég tel, þá er ég ekki þeirrar skoðunar að þetta ákvæði sé innihaldslaust. Ég tel að þetta ákvæði, eins og öll önnur ákvæði stjórnarskrárinnar, muni hafa réttaráhrif og á þeim verði byggt. Ég tel líka skýrt hvert markmið frumvarpshöfunda og flutningsmanna frumvarpsins er sem er í sjálfu sér ekki mjög frábrugðið því sem fram kemur í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þetta frumvarp er tilraun í þá átt að upphefja það ákvæði eins og hæstv. forsætisráðherra hefur skýrt ágætlega út.

Það er síðan verkefni þeirrar nefndar sem mun fjalla um þetta mál að fara yfir það með sérfræðingum og hagsmunaaðilum á öllum sviðum að meta það hvort orðalag ákvæðisins sé í samræmi við þau markmið sem lýst er í greinargerðinni. Hins vegar er alveg augljóst að verði frumvarpið að lögum mun ákvæðið ekki verða innihaldslaust, það er alveg skýrt.