133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:11]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, jú, það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, ég hef lesið þessa álitsgerð Sigurðar Líndal. Ætli ég hafi ekki lesið allt sem frá þeim ágæta lærimeistara mínum hefur komið, sérstaklega hvað varðar þessi atriði. Það er alveg rétt hjá honum og ég er alveg sammála því að ríkið getur í skjóli valdheimilda sinna innkallað allar veiðiheimildir. Ríkið þyrfti væntanlega að greiða einhverjar bætur ef það yrði gert en því er það heimilt. (Gripið fram í: Ekki ef …) Hitt er svo annað mál hvort rétt sé að fara þá leið og ég hugsa að við nafnarnir, ég og lærifaðir minn, séum þeirrar skoðunar, öfugt við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að ekki sé rétt að fara þá leið. Vegna þess að við, öfugt við hv. þingmann, berum virðingu fyrir réttindum manna, hvort sem það eru atvinnuréttindi, nýtingarréttur eða eignarréttur.

Hv. þingmaður spurði mig síðan að því hver réttaráhrif þessa ákvæðis væru. Ég skal segja hv. þingmann það, ég tel að réttaráhrif þessa ákvæðis verði þau sem hæstv. forsætisráðherra lýsti í ágætri framsöguræðu sinni. Það verður síðan verkefni okkar í nefndinni að meta hvort þeim verði náð með orðalagi þess frumvarps sem við ræðum hér.