133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:57]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Nú ræðum við breytingu á stjórnarskránni og klukkan er að verða eitt eftir miðnætti. Mér finnst það mjög merkilegur tími til að verða vitni að því að ríkisstjórn Íslands, eða réttara sagt tveir hæstv. ráðherrar hennar, skuli leggja fram breytingu á stjórnarskránni með svo skömmum aðdraganda. Maður veltir því óhjákvæmilega fyrir sér hvers vegna það er. Ég hef velt þessu fyrir mér í allan dag vegna þess að hér hafa menn ekki verið á eitt sáttir um hvað þessar breytingar fela í sér, ekki færri en 3–4 skýringar hafa verið á því.

Eru þessir háu herrar í ríkisstjórninni að forðast aðra umræðu? Er hæstv. forsætisráðherra, sem ber ábyrgð á efnahagsmálum, að forðast umræðu um verðbólguna? Er hann að forðast umræðu um viðskiptahallann eða er hann að forðast umræðu um það að lækkunin á virðisaukanum skilar sér ekki til neytenda? Það er a.m.k. ekki mjög skýrt hvað felst í þessu frumvarpi. Við höfum orðið vitni að því að hv. þm. Birgir Ármannsson hefur haft eina skýringu um það að þetta breyti ekki neinu hvað varðar eignarhaldið, en hæstv. ráðherra byggðamála segir að þetta sé meiri háttar breyting, grundvallarbreyting. Þegar hann er síðan spurður hver breytingin sé og hvað hún hafi í för með sér fyrir fólkið í landinu, sem líður fyrir vont kerfi — sérstaklega eru það byggðir landsins sem líða mjög fyrir það vonda kerfi sem Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa staðið vörð um — getur hann hvorki nefnt eitt né neitt, ekki eitt atriði, ekki eitt einasta atriði um að þetta raunverulega bæti stöðu fólks. Mér finnst það merkilegt þegar menn tala um grundvallar- og meiri háttar breytingu.

Síðan er skýring hæstv. umhverfisráðherra sem er einnig lögfræðimenntuð og segir að hér sé verið að stöðva eitthvert ferli, það að hefðarréttur myndist á nýtingarréttinum. Þegar maður síðan spyr hæstv. ráðherra hversu langt ferlið er komið fást engin svör. Síðan þegar spurt er til hvaða gagna sé verið að vísa um þá vinnu sem fram hefur farið við þetta ákvæði er jafnvel vísað inn í einhverja nefnd í Framsóknarflokknum. Það sjá allir að þessar breytingar sem til stendur að gera á grundvallarlögum íslenska lýðveldisins eru mjög hroðvirknislegar. Þetta er allt mjög óljóst.

Við í stjórnarandstöðunni erum ekki ein um það, alls ekki, að meta þetta ástand svona. Í blöðunum hefur verið vitnað í tvo sérfræðinga í stjórnskipunarrétti, Björgu Thorarensen og Ragnhildi Helgadóttur, sem báðar eru prófessorar í stjórnskipunarrétti, önnur við lagdeild Háskólans í Reykjavík og hin við Háskóla Íslands. Öllum ber saman um að þetta sé óljóst. Enda er ég alveg sannfærður um það eftir að hafa hlýtt á stjórnarliða koma með margar skýringar á því hvað er í gangi og það kemur ekkert einhlítt svar, alls ekki eins og ég rakti í ræðu minni.

Síðan þegar maður veltir fyrir sér hvað er að gerast vaknar spurningin: Eru menn að forðast umræðuna, forðast umræðuna um þau mál sem ég tíundaði hér fyrst um bágt efnahagsástand, viðskiptahallann og þá óstjórn sem ríkir? Eða er Framsóknarflokkurinn að einhverju leyti að bjarga andlitinu gagnvart fólkinu á landsbyggðinni og reyna að búa til hér eitthvað um að þeir vilji eitthvað halda í fiskveiðiauðlindina, hún verði ekki gefin eins og þeir gáfu sjálfum sér Búnaðarbankann? Ég veit ekki betur en að það standi jafnvel til að setja fleira í gjafapakka, svo sem Landsvirkjun. Þó að það sé ekki í orði veit maður að það verður á borði ef þessir flokkar halda áfram.

Við verðum að muna að áður en Landssíminn var seldur var aldrei talað um að það ætti að selja hann. Það stóð til að einhverju leyti að tryggja að a.m.k. grunnnetið yrði áfram í eigu þjóðarinnar. Síðan breyttist þetta, það er ekkert að marka þetta fólk sem kemur hér, ekki nokkurn skapaðan hlut, því miður. Maður vildi gjarnan geta treyst orðum fólks sem ber upp breytingar á stjórnskipan landsins eða á grundvallarreglum landsins. Því miður er það ekki hægt. Mér finnast vinnubrögðin hjá hæstv. forsætisráðherra hafa verið óábyrg í þessu máli og ég verð að lýsa ákveðinni furðu.

Ef við ætlum að ná sátt um þetta sjávarútvegsmál er ekki hægt að gera eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill, að ætla bara að ná sátt við afar fáa, þ.e. þá sem hafa yfir aflaheimildunum að ráða núna. Mér sýnist það vera markmiðið. Síðan þegar hér er rætt við hv. þingmenn eins og Sigurð Kára Kristjánsson og Ingva Hrafn Óskarsson og fleiri koma alls konar öfugmæli út úr þeim eins og jafnvel að það sé gott ástand á Vestfjörðum. Það heyrði ég í ræðu sem var flutt rétt áðan, það væri jafnvel bara meiri háttar gott ástand, eitthvert ólag kannski en í heildina séð bara uppbygging á Vestfjörðum. Ég spyr hvort menn fylgist ekkert með því sem er að gerast, ekki einu sinni orðum hæstv. forsætisráðherra sem þykist ætla að gera eitthvað og í öllu falli ræða málin í hæstv. ríkisstjórn á morgun. Það virðist ekki þurfa mikið að gera hvað varðar málefni Vestfjarða ef marka má hv. þingmann sem talaði á undan mér.

Mér finnst að við verðum aðeins að velta fyrir okkur grundvellinum á þessu kerfi. Fiskveiðistjórn á að snúast um fólk en ekki bara kerfið sjálft. Þetta kerfi sem við búum við gengur ekki upp, alls ekki. Upphafleg markmið þess, hæstv. forsætisráðherra, var að byggja upp fiskstofnana. Núna sitjum við uppi með helmingi minni afla af þorski en fyrir daga kerfisins. Að auki átti það að tryggja byggð í landinu, og þeir sem fara um byggðir landsins sjá að það hefur alls ekki tekist.

Síðan hafa komið hér alls kyns fullyrðingar um að þetta hafi skilað einhverri hagræðingu, meiri háttar blóma fyrir sjávarútveginn. Það er einfaldlega ekki rétt. Ef þessir háu herrar lesa Hagtíðindi sjá þeir að útflutningsverðmæti sjávarafurða hafa skroppið saman. Það kemur fram í Hagtíðindum sem voru gefin út 17. júlí 2006, að á undanförnum árum hafi skroppið saman það sem flutt er út af fiski í krónum talið. Það er bara á milli áranna, síðustu þriggja ára, og ekki hefur þetta þá skilað okkur meiri tekjum í aðra hönd, alls ekki. Það kemur hér fram að tekjur árið 2002 eru vel yfir 120 milljarða í útflutningsverðmætum en 2005 eru það rétt rúmlega 100 milljarðar. Ég spyr: Hvar er ágóðinn fyrir þjóðina að halda þessu gangandi? Menn verða að fara að koma með einhver svör um það en ekki bara að tala í einhverjum frösum, menn verða að koma með eitthvað orðum sínum til vitnis. Því miður gera menn það ekki og komast allt of oft upp með það að tala í frösum.

Þetta kerfi hefur ekki skilað neinum árangri. Það er ekki hægt að stýra veiðum úr fiskstofnum sem eru staðbundnir víða undan landinu með einum heildarkvóta, það sér hver maður. Ég vona að hæstv. byggðamálaráðherra sé að hlusta því að við hann vil ég segja: Ef við legðum t.d. af allar veiðar í Bakkaflóa, eins og mér sýnist vera að gerast, a.m.k. ef marka mátti Kristin Pétursson í Silfri Egils í fyrradag, væri bara útséð um frekari útgerð þar vegna þess að verið væri að selja veiðiréttinn. Ég spyr hæstv. ráðherra byggðamála: Telur hann að ef við hættum að veiða fisk í t.d. Bakkaflóa syndi þeir þá á miðin út af Vestfjörðum ef þar er meira veitt vegna þess að menn hætta að veiða við Bakkaflóa, þeir bara syndi í skarðið sem myndast ef menn taka minna úr Bakkaflóa? Auðvitað gerist það ekki, en samkvæmt kerfinu á að heita að það gangi upp. Við eigum ekki að sætta okkur við svona vitleysu, það er alveg af og frá.

Það sem er kannski sárast í þessu öllu er að við í Frjálslynda flokknum höfum varað við þessu. Við höfum bent á það hver framvindan yrði í byggðamálum landsmanna ef þetta kerfi héldi áfram. Við höfum sagt að þá yrði samþjöppunin meiri, það mundi skapa meiri óvissu í byggðunum. Við getum séð það vegna þess að hv. þm. Jón Kristjánsson talaði um að fyrir daga kvótakerfisins hefði verið hér mikil óáran. Það er ekki rétt hjá honum og menn eru að búa til einhverja grýlu úr ástandi sem var fyrir daga kvótakerfisins.

Ég bendi hv. þingmanni á það og þeim sem hlýða á mál mitt að einmitt á árunum 1960–1980 byggðust mörg þessara þorpa upp sem síðan fóru illa út úr kvótakerfinu. Af því að ég sé að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er nú annt um Siglufjörð, stendur hér upp vil ég benda henni á að þegar kvótakerfið var sett á voru um 2 þús. manns búsettir á Siglufirði. Núna getur enginn hafið útgerð þar (Gripið fram í.) vegna þess að það þarf að greiða svo háa upphæð fyrir leyfið. Núna eru íbúar rétt rúmlega 1.300 þannig að eyðingarmáttur kerfisins hefur verið gríðarlegur og ekki nóg með það, heldur er þessi staða í rauninni verri í mörgum byggðum landsins vegna þess að það vantar orðið ungt fólk inn í byggðirnar.

Auðvitað er þetta að einhverju leyti stefna Framsóknarflokksins, a.m.k. hugmyndafræðings hans sem birti þær hugmyndir sínar og framtíðarsýn fyrir Ísland að gera það að borgríki. Nú er hann orðinn hæstv. byggðamálaráðherra og kom kannski vel á vondan að vera lentur í því starfi og hafa birt þá sýn sína að koma öllu fólki fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst að hann ætti að verja örlitlum tíma í að kanna hvort þetta kerfi skili þjóðinni einhverju gagni. Ef maður skoðar bara útflutningstölur og verðmæti sjávarafurða sést að það hefur dregist saman þannig að heildarhagsmunir þjóðarinnar hafa augljóslega tapað á þessu kerfi.

Það eru til byggðir og bæir sem hafa talið sig koma jafnvel ágætlega út úr kerfinu, eins og Akureyri. Síðan er það þannig að meira að segja á slíkum stöðum veldur það óvissu, það veldur gríðarlegri óvissu. Við sáum í byrjun ársins að á einni nóttu voru öll skip Brims skráð í Reykjavík. Þar ríkir augljós óvissa. Við eigum að líta frekar til þess hvernig við getum breytt kerfinu í stað þess að halda áfram vitleysunni. Stjórnvaldsaðgerðir, hvort sem eru á sviði heilbrigðismála eða hvaða málaflokks sem er, eiga að snúast um fólk. Þannig eigum við líka að hugsa um fiskveiðarnar en því miður virðist vera svo kerfislægur hugsunargangur bæði hjá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum að að einhverju leyti þora menn ekki að taka hagsmuni heildarinnar og skoða það kerfi sem menn hafa í gangi og flytja þess vegna einhverjar sýndartillögur. Það hefur komið fram hér í umræðum í dag að það eru margar mismunandi skoðanir uppi um það hvað þessi breyting á stjórnarskránni þýði í raun og veru. Því miður.

Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á það að þetta kerfi girði algerlega fyrir nýliðun. Ég hefði talið að ungir og efnilegir hv. þingmenn eins og Ingvi Hrafn Óskarsson og Birgir Ármannsson ættu að líta til þess að breyta kerfinu til að nýliðar gætu tekið þátt í þessum útvegi. Því miður virðist sem þeir frekar þá herði á, herði miklu frekar á að festa kerfið í sessi og loka meira að segja skemmtibátana af inni í því. Það er verið að setja skemmtibátana líka inn í kvótakerfið, hugsið ykkur, skemmtibátana, þeir mega ekki einu sinni vera í firði. Það er meira að segja lokað fyrir það að ferðaþjónustan geti nýtt sér fiskveiðiauðlindina vegna þess að þessir flokkar, bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, eru alltaf að hugsa um þessa þröngu hagsmunaklíku sem hefur nú yfir nýtingu fiskimiðanna að ráða en alls ekki heildarhagsmuni þjóðarinnar. Því miður.

Aftur að því þegar menn tala um þennan gríðarlega árangur. Ég er búinn að fara yfir það og vitna í opinber gögn um að tekjur eru ekki að aukast. Það er líka annað sem er að gerast, skuldir útgerðarinnar eru að aukast og hafa þrefaldast á örfáum árum, á síðustu 11 árum. Út úr atvinnugreininni hefur runnið upphæð sem svarar til tveggja Kárahnjúkastíflna. Auðvitað hefur þetta valdið mikilli þenslu í samfélaginu sem hefur ekki verið tíunduð eins og áhrifin af stóriðjunni. Þetta er eitt af því sem þarf að gaumgæfa, þetta kerfi er langt frá því að standast einhverja skoðun.

Því miður virðist sem menn reyni að þagga niður líffræðilega grundvöllinn að þessu. Það er eins og að ekki megi skoða það með gagnrýnum hætti hvort við getum að einhverju leyti stýrt fiskveiðum með öðrum hætti þegar við höfum dæmin fyrir okkur, t.d. í Færeyjum þar sem menn stýra fiskveiðum með sóknarstýringum í staðinn fyrir að ákveða heildarkvótann fyrir fram eins og við gerum hér. Ég hef líkt þessu við það að við mundum ákveða fyrir fram hvað við ætluðum að taka upp úr kartöflugörðum landsins, það væri heildarkvóti á því hvað við ætluðum að taka upp. Það gengur ekki upp.

Að lokum skora ég á stjórnarmeirihlutann að koma sér saman um einhverja merkingu á því hvað þeir eru í rauninni að gera. Hér hafa komið upp margar skoðanir á þessum athöfnum, á þessari fyrirhuguðu lagasetningu, það sé nákvæmlega ekki neitt, það séu grundvallarbreytingar og það sé verið að koma í veg fyrir að frekari eignarréttur eða nýtingarréttur myndist. En því miður hafa ræður stjórnarliða ekki verið mjög upplýsandi um það og sumir hafa varið löngum tíma í að reyna að túlka ræður stjórnarandstöðunnar.

Við í Frjálslynda flokknum erum allir af vilja gerðir til þess að gera fiskveiðiauðlindina að þjóðareign, raunverulegri þjóðareign sem tryggi að almenningur geti nýtt hana og hafi jafnan aðgang á jafnræðisforsendum. Það er það sem þetta ætti að snúast um. Í staðinn fyrir það er hér flutt hver ræðan á fætur annarri þar sem menn tala í einhverri lögfræðilegri þoku um eignarrétt og nýtingarrétt og hefðarrétt og maður sem er ekki með háskólagráðu á sviði lögfræði á fullt í fangi með að átta sig á því hvað menn eru í rauninni að fara. Þegar maður búinn að kryfja það virðast margar skoðanir vera uppi, a.m.k. virðist hæstv. ráðherra byggðamála vera allt annarrar skoðunar um það hvað sé í gangi en ráðherra umhverfismála.

Ég get ekki séð annað en að með þessu frumvarpi sé forsætisráðherra að stefna að því sem hann boðaði á LÍÚ-þingi í haust, þ.e. að festa þetta kerfi og reyna að tryggja í sessi (Forseti hringir.) eignarhald þeirra sem hafa nú nýtingarréttinn.