133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:18]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Klukkan er langt gengin í tvö, þetta hefur verið löng umræða í dag enda er málið mikilvægt og eðlilegt að menn vilji ræða um það. Ég vil byrja á því að draga fram í upphafi aðdragandann að þessu máli og hvernig það lítur út gagnvart okkur framsóknarmönnum.

Við höfum um langa tíð stutt almennt aflamarkskerfið. Framsóknarflokkurinn hefur átt þar talsverðan hlut að máli og við teljum að margir góðir kostir séu við kerfið eins og það hefur verið notað á Íslandi. Sjávarútvegur okkar heldur uppi mikilvægri atvinnu, hefur skilað mikilvægum tekjum inn í þjóðarbúið og með þessu kerfi höfum við getað byggt upp fyrirtæki sem geta keppt á alþjóðamörkuðum í sölu sjávarafurða þvert á það sem við sjáum í sjávarútvegi margra annarra landa þar sem sjávarútvegur er á heljarþröm. Þar er sjávarútvegurinn styrktur en ekki öfugt, hér höfum við haft tekjur af sjávarútvegi. Það er ótvírætt að mínu mati að aflamarkskerfið hefur marga góða kosti. Framsóknarflokkurinn hefur talið það kerfi skila miklum árangri. Við höfum hins vegar verið í miklum umræðum í flokknum um þetta kerfi. Áður hefur verið vitnað í nefndarstarf sem átti sér stað á vegum flokksins og þar var alveg skýrt að við vildum ná fram ákvæði í stjórnarskránni um að sjávarútvegsauðlindin væri þjóðareign. Við höfum ekki viljað að kvótinn yrði eign útgerðarmanna.

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, var formaður í þeirri nefnd, leiddi það nefndarstarf af miklum myndarskap á þeim tíma. Ég tók þátt í því ásamt fjölmörgum öðrum flokksmönnum þannig að það var alveg ljóst hver vilji okkar var og hefur verið um langan tíma, þ.e. að setja ákvæði um að sjávarútvegsauðlindin sé sameign þjóðarinnar, þjóðareign. Við höfum viljað setja það í stjórnarskrá.

Íslendingar vilja það almennt eins og maður hefur skynjað andrúmsloftið. Íslendingar vilja ekki almennt að kvótinn þróist í eign útgerðarinnar. Nú var búið að semja um þetta á sínum tíma milli stjórnarflokkanna, þess vegna rataði ákvæðið inn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Það var samið um að þetta ætti að fara í stjórnarskrá milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Eins og ákvæðið kemur núna inn í þingið er það víðtækara og það er eðlilegt að mörgu leyti. Bæði hefur Framsóknarflokkurinn ályktað á þá leið og líka Sjálfstæðisflokkurinn að náttúruauðlindir almennt ættu að flokkast sem þjóðareign, þ.e. ekki ætti bara að taka sjávarútveginn út úr heldur ætti að gæta jafnræðis gagnvart öðrum náttúruauðlindum. Það er eðlilegt að þetta beri að með þessum hætti, það kemur hingað inn í þingið með víðtækari hætti.

Okkur í Framsóknarflokknum hefur verið núið því um nasir að þetta sé eitthvert mál sem kemur núna korteri fyrir kosningar, eins og það heitir á góðu máli. Það er þó ekki þannig eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni. Hann var spurður um þetta í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 ekki alls fyrir löngu og þar kom hann því mjög skýrt á framfæri að hann skýrði hæstv. forsætisráðherra frá því strax fyrir jól að við framsóknarmenn hefðum mjög miklar áhyggjur af þessu ákvæði og vildum efna það sem stendur í stjórnarsáttmálanum um þetta og flokkarnir voru sammála um á sínum tíma. Það er alveg ljóst að hann gerði grein fyrir þeim þunga sem var í málinu og segir síðar í viðtalinu að hann hafi margsagt samstarfsflokknum frá því að mikil undiralda væri í Framsóknarflokknum út af þessu máli og að menn vildu standa við þetta.

Hann segir líka að það sé alveg ljóst að þetta er ekkert nýtt mál og það hefur verið ljóst í nokkurn tíma. Þetta eru orð hv. þm. Jóns Kristjánssonar sem stýrði starfi stjórnarskrárnefndar. Þetta er ekki mál sem hefur verið órætt og sem menn þekkja lítið til enda hefur stjórnarandstaðan sjálf lýst því að við höfum góðan tíma til að fara í þetta mál, stjórnarandstaðan lýsti því að hún væri tilbúin til að greiða fyrir því að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti væru settar inn sem þjóðareign í stjórnarskrána og hún væri líka tilbúin til að taka beint orðalag upp úr stefnuyfirlýsingunni í stjórnarskrá. Stjórnarandstaðan sagði í tengslum við blaðamannafund sem hún hélt um þetta mál að nú þegar lægi fyrir grundvöllur til að ljúka málinu. Ég tel (Gripið fram í.) að menn hafi almennt gefið út þau skilaboð í stjórnarandstöðunni að hægt sé að klára þetta mál, svo framarlega sem vilji er fyrir hendi. Það er auðvitað grundvallaratriði. Við höfum vilja til þess að fara í málið og þess vegna ber það hér að.

Komið hefur fram í ræðum sumra að ákvæðið þýði ekki neitt. Ég er ekki sammála því og mér þótti vænt um að heyra að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson staðfesti að þetta ákvæði hefði að sjálfsögðu áhrif. Það hefur réttaráhrif. Það var gott að heyra að við erum sammála um að þetta hefur áhrif.

Ég vil líka aðeins gera að umtalsefni það sem Morgunblaðið hefur sagt um þetta mál. Það hefur mjög lengi talað fyrir því (MÞH: Mogginn lýgur aldrei.) — hér er kallað inn í að Mogginn ljúgi aldrei en það er reyndar ekki alveg þannig. Á föstudaginn var flennistór fyrirsögn á forsíðunni: Jón, Guðni og Jón stóðu þétt saman gegn Siv, en sú fyrirsögn er algjörlega úr lausu lofti gripin og innihald fréttarinnar eftir því. Það er annað mál. Morgunblaðið hefur gert þetta mál að umtalsefni um nokkurt skeið og hefur fylgst með því. Það var mjög athyglisverður leiðari í Morgunblaðinu 20. janúar á þessu ári og í honum segir, með leyfi forseta:

„Það skiptir miklu máli að þessi tillaga komi fram nú.“ — Ég skýt hér inn að hér er verið að tala um að setja ákvæði sem um var samið í stjórnarsáttmálanum inn í stjórnarskrá. Svo segir áfram í leiðaranum:

„Enn eru á ferðinni menn í þessu samfélagi, sem gera sér hugmyndir um að þeir geti komið því fram, að fiskimiðin verði gerð að einkaeign útgerðarmanna. Þess vegna skiptir máli, að ákvæðið um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar verði tekið upp í stjórnarskrá. Með því móti einu er hægt að koma endanlega í veg fyrir allar tilraunir til þess að fámennur hópur manna sölsi undir sig þessa miklu eign íslensku þjóðarinnar, sem á að vera sameign hennar um aldur og ævi.

Formenn stjórnarflokkanna verða að taka af skarið í þessu máli. Þeir eru ábyrgir fyrir því gagnvart kjósendum að staðið sé við stjórnarsáttmálann. Þeir hafa ekki komið fram með nein haldbær rök fyrir því að ekki sé hægt að standa við þetta ákvæði stjórnarsáttmálans. Þeir verða að standa við sitt.“

Nú er það gert, þ.e. komin er fram tillaga og um hana er góð samstaða. Fyrr í dag var spurt af hverju þetta mál kæmi ekki fram sem ríkisstjórnarfrumvarp og mér fannst verið að ýja að því að e.t.v. væri ekki samstaða um málið innan stjórnarflokkanna. Innan þingflokks Framsóknarflokksins stöndum við þétt við bakið á formanni okkar í þessu máli og sá texti sem nú liggur fyrir hindrar, eins og hér hefur margítrekað komið fram í ræðum og m.a. í ræðu formanns Framsóknarflokksins, að honum samþykktum að eignarréttur skapist á auðlindum, svo sem á fiskveiðiauðlindinni. Þetta er alveg skýrt.

Ef þingmönnum finnst ákvæðið óskýrt er eðlilegt að skoða það í nefnd eins og hefðbundið er með önnur mál sem hingað koma inn. Ég á von á því að nefndin vinni þetta vel.

Ég á svolítið erfitt með að rýna í viðhorf sumra útgerðarmanna af því að mér heyrist sumir þeirra telja að afnotarétturinn sé aðalmálið, þ.e. að hægt sé að nýta þessa náttúruauðlind eins og fiskveiðiheimildirnar með arðbærum hætti. Svo eru aðrir sem vilja að þessi náttúruauðlind, fiskstofnarnir, verði í einkaeigu, vilja sem sagt meira en afnotaréttinn. Þessi afnotaréttur er eins og við vitum afturkallanlegur, þ.e. ef menn kjósa að fara þá leið. Það verður löggjafinn á hverjum tíma að ákveða en okkur finnst eðlilegt að sá möguleiki sé fyrir hendi, þ.e. þetta er ekki endanlegur afnotaréttur. Við höfum ekki kosið að styðja það að innkalla veiðiheimildirnar, það höfum við ekki gert. Það er eðlilegt að sá réttur sé fyrir hendi. Þetta er ekki endanleg afhending á afnotarétti, svo er ekki, hvað þá afhending á eignarrétti, alls ekki.

Virðulegur forseti. Inntak frumvarpsins er þannig að náttúruauðlindir okkar verða þjóðareign, það er ekki verið að breyta með því aflamarkskerfinu eins og mér finnst að margir rugli inn í umræðuna, en náttúruauðlindir verða þjóðareign þannig að óbein eignarréttindi sem þegar eru fyrir hendi munu ekki breytast og þar er verið að ræða um afnotaréttinn. Þessi óbeinu eignarréttindi breytast ekki með þessari gerð en þau réttindi leiða ekki til beins eignarréttar. Heimildirnar eru og verða áfram afturkræfar að frumvarpi okkar samþykktu. Markmiðið er að koma í veg fyrir að hefðarréttur myndist.

Mér finnst þetta hafa komið mjög skýrt fram í framsöguræðum. Ég tel að framsöguræður skipti máli og greinargerðin sömuleiðis. Allt þetta sýnir a.m.k. mér að hér er markmiðið skýrt og það hefur m.a. formaður Framsóknarflokksins dregið ítrekað fram, bæði í umræðum hér og einnig á opinberum vettvangi fjölmiðlanna. Megintilgangur frumvarpsins er að staðfesta eign þjóðarinnar á auðlindunum þannig að nýtingarheimildir, t.d. fiskveiðiheimildir, verði ekki háðar beinum eignarrétti heldur séu áfram afturkræfur afnotaréttur þannig að veiðiheimildirnar verði áfram afturkallanlegar samkvæmt lögum. Þetta er sem sé alvöruþjóðareign að mínu mati.

Í greinargerðinni segir líka orðrétt um nýtingarheimildirnar að þær muni ekki leiða til beins eignarréttar. Eðli málsins samkvæmt leiða slíkar heimildir ekki til óafturkallanlegs forræðis einstakra aðila yfir þeim, sbr. 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, nr. 116/2006, þótt þær kunni að njóta verndar sem óbein eignarréttindi. Ég tel, virðulegur forseti, að þetta sé skýrt og það er mikilvægt að setja þetta grundvallarmál í stjórnarskrá.

Ég tel að stjórnarandstaðan ætti að leggjast á sveif með þessu máli. Ég sé ekki alveg rökin fyrir því að hún ætti ekki að gera það. Það er verið að tryggja þjóðareign að þeim náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti. Að öðrum kosti er talið að hefðarréttur geti skapast og það viljum við ekki. Ég hef skilið stjórnarandstöðuna þannig að hún vilji það heldur ekki.

Ég tel hins vegar að umræðan um aflamarkskerfið geti flækt huga manna. Ég hef heyrt að það hafi gerst í umræðunum en við erum ekki að tala um breytingar á því kerfi í þessu frumvarpi. Löggjafinn getur áfram haft það eins og hann vill. Við erum að tala um að ekki skapist hefðarréttur á einhvers konar eign á auðlindunum. Þá hefur umræðan mest verið um fiskveiðiauðlindina. Ég tel mjög mikilvægt að þetta ákvæði sé komið inn í þingið og ég er mjög ánægð með hvernig haldið var á því máli af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, það náðist sameiginleg niðurstaða um að færa þetta mál hingað inn í lok þings. Það er eðlilegt að það beri að í lok þings. Við stöndum við stjórnarsáttmálann.

Auðvitað óskar maður þess að stjórnarandstaðan taki þátt í að afgreiða málið til þess að það sé skýrt að það bíði ekki um einhver ár án þess að vera leyst. Ég tel að ábyrgð stjórnarandstöðunnar sé ansi mikil í þessu sambandi, virðulegur forseti. Ef ekki næst að klára þetta mál, og klifað er á því sýknt og heilagt að þetta sé eitthvað óskýrt, tel ég að færa megi rök fyrir því að það tímabil verði lengra og lengra sem ekki er skýrt að um sé að ræða þjóðareign, þ.e. þessar náttúruauðlindir, og eigi ekki að skapa eignarrétt. Ég tel að það sé óæskilegt að við höfum þá stöðu uppi til framtíðar litið.

Ég vona að stjórnarandstaðan ásamt stjórnarflokkunum sameinist um að vinna þetta mál vel í nefndinni sem taka mun til starfa. Ef eitthvað þarf að skýra þurfa menn að skoða það vel í nefndinni. Mér finnst ekki að við getum útilokað það á þessari stundu að reynt verði að skýra þessi ákvæði. Maður heyrir að það er kallað eftir því hjá einstaka þingmönnum. Af minni hálfu er ég ánægð með þessa niðurstöðu og tel mikils um vert að málið sé komið fram. Ég vona að við getum sameinast um að klára það á yfirstandandi þingi þó að það sé viðkvæmt. Að sjálfsögðu er þetta grundvallarmál en ég tel að umræðan sé það þroskuð að við eigum að geta klárað það.