133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár – stækkun álversins í Straumsvík.

[10:31]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði í þingsal 22. nóvember 2005 að virkjanir í neðri hluta Þjórsár væru mjög hagkvæmar og mjög eðlilegur virkjunarkostur og, það sem meira er, að þær væru meira og minna tilbúnar. Þann 13. febrúar 2007 sagðist hv. þingmaður hins vegar algerlega vera á móti virkjunum í neðri hluta Þjórsár.

Ég hef á undanförnum vikum í þrígang reynt að knýja hv. þingmann til að skýra þessa breyttu afstöðu sína til virkjana í neðri hluta Þjórsár. Ég tók málið fyrst upp á þingi 22. febrúar, þá 28. febrúar og loks 1. mars sl. Hv. þingmaður hefur ekki vikið einu einasta orði að því eða reynt að skýra út þessa breyttu skoðun sína á virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Síðast þegar málið var tekið upp, 1. mars, var hv. þingmaður næstur á eftir mér í ræðustól og vék ekki einu einasta orði að þessu efni. Þetta var ótrúlega kauðskt svo að eftir var tekið þannig að þögnin var í raun og veru ærandi. Ég skil vel að hv. þingmanni þyki þetta mál óþægilegt og vilji helst komast hjá því að ræða það en málið verður ekki þagað í hel. Þess vegna leita ég eftir því í fjórða skiptið að hv. þingmaður skýri afstöðu sína fyrir þingi og þjóð.

Það verður að hafa í huga að um er að ræða væntanlegt forsætisráðherraefni stóra kaffibrandarans, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Staðreyndin er nefnilega sú að Vinstri hreyfingin hefur verið á kafi í stóriðju- og virkjunaráformum allt frá því að hv. þm. Ögmundur Jónasson greiddi atkvæði með síðustu stækkun Ísals þegar hún var hér á Alþingi. Það má taka vinstri græna á Akranesi, vinstri græna á Akureyri og vinstri græna á Húsavík sem allir óska eftir stóriðjuuppbyggingu og virkjunarframkvæmdum. Það er hræsni og (Forseti hringir.) tvískinnungur Vinstri grænna í stóriðju- og virkjunarmálum og það er það sem hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon þarf að skýra út fyrir þingi og þjóð.