133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár – stækkun álversins í Straumsvík.

[10:38]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkuð athyglisvert að fylgjast með orðaskiptum hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég minni á að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur hvað eftir annað — ég hugsa að það skipti ekki tugum, frekar hundruðum — heimtað svör af hinum og þessum ráðherrum við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Ég minni á að hv. þingmaður hefur ekki vandað ráðherrum kveðjurnar ef þeir hafa ekki komið og svarað þegar hv. þingmaður hefur viljað.

En við sjáum hér hvernig hann bregst við sambærilegum hlutum þegar menn spyrja um sinnaskipti hv. þingmanns í þessu máli, sinnaskipti. Það er kannski kominn tími á að hann fari aðeins að gera upp sín mál. Ég hvet þingheim og aðra til að lesa t.d. bók fyrrverandi formanns Alþýðubandalagsins, hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, t.d. bls. 262 þar sem hún fer yfir raunverulegar umhverfisáherslur gamla Alþýðubandalagsins og hvernig hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beitti sér fyrir því að umhverfismál færu ekki úr landbúnaðarráðuneytinu yfir í umhverfisráðuneytið á sínum tíma. (Landbrh.: Þetta var skuggaráðuneytið.) Nákvæmlega, þetta var gert til að kaupa menn til liðs við ríkisstjórnina, það hafði ekkert með umhverfismál að gera, nákvæmlega ekki neitt. (Landbrh.: Rétt hjá þér.) Ef við förum aðeins líka í sögu Vinstri grænna, af því að þeir eru svo gríðarlega mikið á móti stóriðju núna, beittu þeir sér ásamt Samfylkingunni fyrir því að t.d. Orkuveita Reykjavíkur færi út í stóriðju. Slíkt liggur alveg fyrir skjalfest og það er bara eðlilegasta mál í heimi að hv. þingmaður þurfi að svara þessum hlutum. Það er hins vegar ágætt að vita af því, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hvernig menn ætla að haga sér ef þeir (Forseti hringir.) kæmust kannski til valda. Þá á ekki að svara spurningum.