133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár – stækkun álversins í Straumsvík.

[10:40]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Það er alltaf skemmtileg upprifjun að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon í stjórnarandstöðu tala á móti álveri og tala á móti stóriðju. Sá var ekki tónninn í honum í þetta eina skipti sem hann var ráðherra, heldur var þá farið um landið allt til að bjóða upp á álver hér og álver þar eins og hv. þingmaður man, m.a. við Dysnes við Eyjafjörð, eins og hv. þingmaður man úr þeirri ríkisstjórn, ég tala nú ekki um þegar Hjörleifur Guttormsson ferðaðist með helstu trúnaðarvini sína á Austfjörðum upp um öll öræfi til að sýna þeim virkjunarstaði og sýndi þeim hvar álver ætti að standa við Reyðarfjörð.

Staðreyndin er auðvitað sú að Vinstri grænir og Alþýðubandalagið gamla eru mjög klofin í þessu máli. Það fer eftir hagsmunum á hverjum stað hvernig talað er. Ég þekki vel flokksbræður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar fyrir norðan og það er síður en svo að þeir tali allir einum rómi á móti álveri við Húsavík frekar en vinstri grænir gerðu þegar þeir óðu um alla Hellisheiðina með R-listanum í Reykjavík eins og auðveldlega má sjá ef maður nennir upp á heiðina.

Auðvitað er staðreyndin sú, ef við horfum t.d. til Húsavíkur, að það er ekki auðvelt að benda á fyrirtæki sem getur skotið þar fótum undir atvinnulíf með þeim hætti að ungt fólk sækist eftir að koma aftur til heimabyggðar sinnar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur reynt að útskýra sjónarmið sín í Skarpi. Það var ekki skarplega skrifað sem hann sagði í þeim pistli og lítt traustvekjandi fyrir fólk á Húsavík sem nú veltir fyrir sér framtíð staðarins. Nú er flokkur Steingríms J. Sigfússonar orðinn næsta stór í skoðanakönnunum. Við skulum vona að hann hafi þrek og þroska til að fylgja því eftir ef svo ólíklega fer að hann fái svo mörg atkvæði sem spáð er.