133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár -- stækkun álversins í Straumsvík.

[10:48]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Eftir því sem meira er talað um atvinnumál og pólitík hér í þinginu kemur betur og betur í ljós að sósíalistarnir, gömlu kommarnir, eru búnir að yfirtaka Samfylkinguna líka. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er orðinn forsætisráðherraefni þessarar þjóðar, til hamingju með það, hv. þingmaður, og forsætisráðherra Samfylkingarinnar einnig.

Hins vegar er það makalaust að hlusta á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon halda því fram að Framsóknarflokkurinn beiti hér málþófi. Hann er aðeins með fimm þingmenn hér í þinginu og þeir tala vikum og mánuðum saman hvern einasta vetur í málæði um allt og ekkert, eru á móti öllu. Og nú hefur það komið í ljós að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem studdi eitt mál fyrir tveimur árum, að virkja í neðri hluta Þjórsá, er orðinn á móti því líka. Þessi flokkur getur nú breytt um stefnu og það er auðvitað eðlilegt, menn geta verið vitrari í dag en þeir voru í gær.

En staðan er sú að íslensk pólitík stendur frammi fyrir því, samkvæmt skoðanakönnunum, að hún er að fara 20 ár til baka. Það verður pólitísk óvissa á Íslandi ef þetta heldur áfram svona. Það hvarflar aldrei að mér að hin skynsama íslenska þjóð vilji eyðileggja þá miklu vegferð til velsældar og hagsældar sem hefur verið lagður grunnur að í tólf ár af þeim flokkum sem nú fara með völdin á Íslandi.

Ég trúi því að það muni renna upp ljós fyrir þjóðinni að fyrir ofan höfuðið á Vinstri grænum er eitt rautt merki. Það þýðir stopp, ekki bara stopp í stóriðjuframkvæmdum, heldur stopp á útrás fyrirtækjanna, stopp á hagsældina. Eina úrræðið verður gamla úrræði kommanna, að skatta fólkið og fyrirtækin til að láta aðra hafa þá peninga. Við stöndum frammi fyrir þeirri stórpólitísku stöðu á Íslandi og þetta verður þjóðin að gera upp við sig: Hvað vill hún, hvað vill hún ekki? Ég veit að hún vill ekki Samfylkinguna og Vinstri græna í meirihlutastjórn á Íslandi eins og skoðanakannanir eru að segja. (Gripið fram í.)