133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

afstaða VG til virkjunar í neðri hluta Þjórsár -- stækkun álversins í Straumsvík.

[10:50]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi farið alveg nógu langt til baka. Ég gæti trúað að að einu leyti yrðu íslensk stjórnmál nær því að fara 30 ár til baka en 20 ár. 1978 var nefnilega Framsóknarflokkurinn minnsti flokkur landsins, minnstur á Alþingi. Það skyldi nú ekki vera að að þessu leyti gæti sagan átt eftir að endurtaka sig og við upplifum Framsóknarflokkinn í svipuðu hlutverki og svipuðum styrkleika hér á næsta kjörtímabili og hann var eftir kosningar 1978? (Gripið fram í.)

Ég get ekki gert framsóknarmönnum þann greiða, sem ég veit að þeir mundu helst vilja af mér þiggja, að hætta að vera til. Ég veit það og ég finn að tilvera mín og tilvist í íslenskum stjórnmálum veldur miklu hugarangri í Framsóknarflokknum, það leynist engum manni sem með þessum umræðum hefur fylgst. Ég sting upp á að Framsóknarflokkurinn horfist í augu við það að þeim veruleika fær Framsóknarflokkurinn ekki breytt. Framsóknarflokkurinn ræður því að sjálfsögðu hvernig hann hagar sínu máli, en mér stjórnar hann ekki. Ég tala fyrir sjónarmiðum mínum og útskýri mín mál og ég hvet þá sem vilja leggja sig eftir efni máls að lesa ræður mínar í heild en notast ekki við tilvitnanir af því tagi sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson greip til hér um daginn þegar hann sleppti aftan af setningu í tilvitnun vegna þess að hún passaði ekki inn í samhengið. Ég man ekki eftir því áður að þannig hafi verið vitnað í mál mitt, að menn sleppi aftan af setningu sem ekki passar inn í samhengið, það er óvenjulegt.

Það er kostulegt að heyra Framsóknarflokkinn, sem fyrir fjórum árum hamaðist við að reyna að sannfæra þjóðina um að við værum á móti öllum virkjunum, á móti öllum framkvæmdum, (GÓJ: Er það ekki rétt?) snúa nú við blaðinu og segja að við séum með öllu. (GÓJ: Er það ekki rétt?) Ég held að þjóðin sjái í gegnum þetta og skoðanakannanir benda með skýrum hætti til þess að hún geti alveg hjálparlaust (Forseti hringir.) gert upp hug sinn í þessu máli.