133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:41]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum. Ég get ekki annað en tekið undir þá gagnrýni sem hefur komið fram frá öðrum nefndarmönnum í umhverfisnefnd en ég kannast varla við að það hafi verið farið yfir þetta mál í nefndinni. Þó kann það að vera vegna þess að ég var frá um tíma vegna veikinda.

Ég hef ýmsar spurningar sem ég vildi gjarnan fá svör við áður en umræðunni lýkur. Ég las greinargerðina og á að heita einn af flutningsmönnum málsins en ég átta mig ekki alveg á hvaða afleiðingar þetta hefur á verð á þeim drykkjarvörum sem er verið að fjalla um hérna. Mun þetta hækka verð til neytenda? Hvaða afleiðingar hefur þetta? Ég get ekki annað en sagt en að ég verð að taka undir með félögum mínum í stjórnarandstöðunni í nefndinni. Ég tel ástæðu til þess að nefndin taki málið inn aftur að lokinni þessari umræðu og fari betur yfir málið. Fulltrúar neytenda þurfa að koma á fund nefndarinnar og jafnvel frá Endurvinnslunni. Þetta mál þarf að skýra betur.

Það eru reyndar aðeins tveir dagar eftir af þinginu miðað við starfsáætlun þess. Það á greinilega að afgreiða mikið af málum og eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á áðan er fundað stíft og a.m.k. er ég boðuð á tvo fundi í hádeginu til að bæði afgreiða mál og fjalla um mál. Þar má nefna umhverfisnefndarfundinn þar sem mál um brunavarnir er til umfjöllunar, mál sem er tiltölulega nýkomið inn í nefndina og annað eftir því.

Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram í umræðunni um vinnubrögðin í nefndinni. Nefndin var að miklu leyti verklaus fyrri hluta vetrar en undir lokin ryðjast inn stórmál sem hefði verið mikilvægt að fá fyrr inn og skoða vel. Við erum náttúrlega að súpa seyðið af því hvernig til hefur tekist erum með annað þingmál, næsta mál á eftir, þar sem er verið að breyta lögum vegna mistaka. Það er ömurlegt að þurfa að standa frammi fyrir því að vegna fljótaskriftar í vinnslu nefndar á málum þurfi að hlaupa til og leiðrétta málin eða leiðrétta lögin eftir að þau eru gengin hér í gegn. Ég tek undir gagnrýni félaga minna á þessi vinnubrögð.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt en tek heils hugar undir gagnrýnina. Ég fer fram á að málið komi til nefndarinnar og skýrðir verði ýmsir þættir sem að þessu snúa. Það er greinilegt að þegar ríkisstjórnin hljóp til og lækkaði virðisaukaskattinn hefur málið ekki verið hugsað til enda. Þarna eru þættir sem hefði auðvitað átt að taka inn í þá lagasetningu. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri en ítreka að málið fari aftur til nefndarinnar og við fáum svör við þeim spurningum sem hafa verið bornar fram um málið.