133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Örfá orð um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Frumvarpið er í rauninni skattahækkunarfrumvarp, eða skattafrumvarp. Frumvarp sem ber keim af því sem hefur einkennt skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Þeir þykjast lækka skatta á hærri tekjur og færa það síðan yfir í skatta sem neytendur borga.

Ég er hlynntur því að tekið sé gjald sem tengist umhverfismálum, eins konar umhverfisskattur eins og verið er að leggja til, þ.e. verið er að hækka grunn á skilagjaldi vegna einnota drykkjarumbúða. Það er verið að hækka það allnokkuð. Í frumvarpinu eru raktar ástæður fyrir því. Þær ástæður eru nefndar að breyting hafi orðið á löggjöf um virðisaukaskatt og virðisaukaskattur hafi verið lækkaður og það hafi getað skert tekjustofna Endurvinnslunnar hf. Ég vil halda því til haga að sú stofnun, Endurvinnslan hf., þótt hún sé hlutafélag, er fyrirtæki á vegum ríkisins. Hún er fyrirtæki sem heyrir undir umhverfisráðuneytið. Og eins og stendur í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2007, á bls. 427, með leyfi forseta:

„Framlag ríkissjóðs til Endurvinnslunnar hf. er alfarið fjármagnað með ríkistekjum af skilagjaldi og umsýsluþóknun á einnota drykkjarvöruumbúðir. Áætlað er að á árinu 2007 muni gjöldin skila 840 millj. kr. tekjum og er það 60 millj. kr. hækkun frá áætlun gildandi fjárlaga.“

Nú fylgir engin áætlun með frumvarpinu um það hver tekjustaða Endurvinnslunnar hf. er, hvort þetta sé nauðsynleg breyting til þess að standa undir breytingum á rekstrarkostnaði hennar.

Ég tel, herra forseti, að áður en breytingar eru samþykktar á gjöldum hjá fyrirtæki sem er í eigu ríkisins og er á fjárhagslegri ábyrgð ríkisins — þó svo það sé með markaðan tekjustofn, þá er þetta fjárhagslega fullkomlega á ábyrgð ríkisins, og allt bara gott um það í sjálfu sér. En við getum ekki breytt tekjustofnum með röksemdinni „af því bara“, heldur verður að sýna fram á að breyting á gjöldum sé nauðsynleg vegna starfsemi og fjárhags Endurvinnslunnar hf. Fyrir því eru engin rök færð hér. Ég hefði viljað sjá reikning — sjálfsagt verður það þegar málið kemur í umhverfisnefnd, þá verða náttúrlega reikningsskil Endurvinnslunnar hf. lögð fram — þannig að fjárhagslegur og fjármálalegur rökstuðningur sé fyrir hækkun á gjöldum. Ég er alveg hissa á því ef umhverfisnefnd hefur ekki áður en hún flutti þetta frumvarp m.a. leitað umsagnar fjármálaráðuneytisins, hvaða áhrif þessar breytingar hafa á tekjur og gjöld stofnunarinnar.

Það er mjög mikilvægt að vel sé haldið utan um þessi verkefni ríkisins. Við höfum fengið athugasemdir frá Ríkisendurskoðun um hliðstæða starfsemi þar sem verið er að innheimta gjöld á þessum grunni án þess að tilgreindar hafi verið forsendur eða nauðsyn þess. Þetta á við um ýmsar stofnanir eins og talið er upp í fjárlagafrumvarpinu.

Þegar lagt er til að hækka gjöld eða breyta gjöldum, eins og verið er að leggja til, hækka skilagjaldið, verður það að vera gert á reiknuðum forsendum, á grunni rekstrarkostnaðar og þarfa viðkomandi stofnunar nema þá að það sé pólitísk ákvörðun að hafa þetta almennan skattstofn. Það eru þá rök út af fyrir sig en er ekki hluti af þessu máli. Það væri hægt að hafa þetta sem almennan skattstofn sem rennur í ríkissjóð. Þá eru það pólitísk rök. En hér er ekki verið að leggja þau rök heldur er ástæðan „af því bara“.

Fyrir þessu verða að vera rök. Fyrir þessu verða að vera reikningsskil. Og þau vantar með þessu frumvarpi sem hlýtur að verða að koma fram áður en það fær frekari umfjöllun í þinginu.