133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:54]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja hv. þingmenn að lesa greinargerðina. Á bls. 2 segir í byrjun seinni málsgreinar:

„Framangreindar breytingar eiga ekki að leiða til raunhækkunar á innheimtum gjöldum heldur að tryggja að Endurvinnslan hf. fái það sama og hún fékk fyrir lækkun virðisaukaskattsins.“

Gjöldin voru tengd virðisaukaskattinum þannig að þau lækka virðisaukaskattinn og þar af leiðandi voru minni gjöld til Endurvinnslunnar. Þetta kom fram í framsögu og þetta kemur fram í greinargerð.

Ég vil líka leiðrétta hv. þm. Jón Bjarnason, hann hefur augljóslega ekki fylgst alveg nógu vel með, út af úrvinnslumálunum. Við höfum flutt hverja lækkunartillöguna á fætur annarri og þegar allt er talið varðandi úrvinnslugjöldin — ég ætla ekki að fara með töluna núna vegna þess að ég man hana ekki. Ég fór með hana síðast í framsögunni. Varðandi breytinguna á úrvinnslugjaldinu eru þetta mjög háar lækkanir. (ÁRJ: Háar lækkanir?)

Alla jafna varðandi úrvinnslugjaldið eru gríðarlega miklar lækkanir eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem situr í umhverfisnefnd, þekkir mjög vel. Þess vegna skiptir máli, virðulegi forseti, að menn fari rétt með þá hluti. Sem betur fer hefur þetta gengið það vel og kerfið virðist vera það skilvirkt að það hefur skilað sér í lækkunum til neytenda. (Gripið fram í.) Þetta er eins og ég segi, þetta er leiðréttingarmál sem er tekið fyrir í hv. umhverfisnefnd og er búið að flytja fyrir hönd nefndarinnar. Ég tel hins vegar mikilvægt að allir þingmenn séu vel upplýstir um gang mála. Ef einhverjar spurningar eru hlýtur að vera hægt að koma þeim svörum til nefndarmanna og annarra þingmanna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lítið er eftir af þinginu og við verðum að taka mörg mál fyrir eins og við þekkjum. Við vildum gjarnan hafa lengri tíma til þess en það er ekki valkostur nú frekar en oft áður, bæði í tíð þessarar ríkisstjórnar og annarra. Þess vegna ættum við að nýta tímann eins vel og hægt er.