133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að gera beinar athugasemdir þó þurfi að hækka þessi gjöld. Eins og stendur í a- og b-lið:

„Í stað fjárhæðarinnar „6,43 kr.“ kemur: 9,35 kr. Í stað fjárhæðarinnar „3,40 kr.“ kemur: 3,96 kr. o.s.frv.“

Ég er ekki beint að setja út á þessar hækkanir. Þær geta átt sín rök.

En mér finnst eðlilegt, og það er ábending og ráð til hv. umhverfisnefndar, að fá fjárhagslega stöðu Endurvinnslunnar upp á borðið um leið og verið er að taka ákvarðanir um að breyta þessu gjaldi.

Það er sagt að tekjugrunnur geti breyst, magntölur breyst o.s.frv. Það er í hæsta máta eðlilegt að nefndin vinni þetta þannig að hún viti nákvæmlega hver fjárhagsstaða og hvert rekstrarumfang fyrirtækisins er þegar verið er að ákveða breytingar á grunni tekjustofns þess.

Það eru góð og sjálfsögð vinnubrögð. Þetta er ábending hvað þetta mál varðar til umhverfisnefndar — ekki síst þarf að óttast þegar mál er sett á mikla hraðferð — um að menn gæti að grunninum sem mál af þessu tagi byggjast á og þeirri eftirlitsskyldu sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmd verkefna fyrirtækisins Endurvinnslunnar hf.