133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hugmyndir um sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans hafa verið til umræðu um nokkurt skeið eins og kom fram á Alþingi fyrir nokkru síðan og þá jafnframt hugmyndir um breytt rekstrarform hins nýja skóla, þ.e. ef af sameiningu verður. Sameining Stýrimannaskólans eins og við þekkjum og Vélskólans í Fjöltækniskóla Íslands tókst að flestra mati með ágætum og skilaði okkur öflugri og nútímalegri skóla sem nýtist jafnt nemendum sem atvinnulífinu mun betur. Ekki síst er það vegna þeirra nánu tengsla, og ég vil undirstrika þau, Fjöltækniskólans við samtök sjávarútvegsins sem hann er orðinn jafnöflugur og raun ber vitni.

Öflugt iðnnám er hverju samfélagi lífsnauðsynlegt og forsenda þess að hér dafni blómlegur iðnaður og atvinnulífið sjálft. Bein aðkoma atvinnulífsins að iðnnámi er ótvíræður kostur og því hef ég talið ástæðu til að skoða óskir atvinnulífsins um að yfirtaka rekstur Iðnskólans með jákvæðum hug. Ég tel að þetta geti orðið til þess að efla enn frekar þá miklu nánd sem verður að vera og er nauðsynleg á milli vinnumarkaðarins og iðn- og verknámsins. Þeir hagsmunir sem við eigum að hafa að leiðarljósi eru vitaskuld hagsmunir nemenda og hagsmunir iðn- og verknáms. Ef sameining, ákveðnari skuldbinding atvinnulífsins og breytt rekstrarform skilar sér í betra námi er í mínum huga rétt að taka það skref.

Í menntamálaráðuneytinu hafa menn á undanförnum vikum skoðað kosti þess og galla að breyta rekstrarformi Iðnskólans í Reykjavík og sameina hann Fjöltækniskólanum. Ég hef ákveðið að setja á laggirnar starfshóp sem falið verður það verk að undirbúa formlega sameiningu þessara tveggja skóla að því gefnu að viðunandi niðurstaða fáist í þeim álitaefnum sem upp kunna að koma í ferlinu. Þau verkefni sem þarf að skoða og leysa eru mörg, t.d. varðandi starfsmannamál, húsnæðismál og markmið og stefnu hins nýja skóla. Ég vil ítreka á ný að forsenda sameiningar hlýtur að vera að nýr skóli sé á öllum sviðum betur í stakk búinn til að takast á við þau verkefni sem honum eru falin og búa enn betur að jafnt nemendum sem starfsfólki en nú er raunin.

Hvað varðar beina aðkomu Alþingis að málinu tek ég fram að ekki þarf lagabreytingu til að sameining þessara tveggja skóla gangi eftir. Þessu er því ólíkt farið og við sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík — sem vinstri grænir voru á móti — og við væntanlega sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands þar sem í þeim tilvikum hefur þurft að nema úr gildi lög um viðkomandi stofnun. Engin sérlög eru til um einstaka framhaldsskóla og breyting á rekstri þeirra því ekki háð breytingu á lögum.

Ég tek jafnframt fram að þegar hafa þessar hugmyndir verið kynntar stjórnmálahreyfingum, verkalýðshreyfingunni, kennurum og fleirum. Ég fagna hins vegar þeirri umræðu sem við erum að taka hér í dag um málið og því tækifæri sem þingmönnum gefst til að láta í ljósi skoðun sína á málinu. Sömuleiðis vil ég taka fram að ef af sameiningu verður kæmi það að sjálfsögðu til kasta Alþingis að samþykkja og þá um leið að ræða fjárheimildir til hins nýja skóla. Í þeim hugmyndum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir að hann verði rekinn með áþekkum hætti og t.d. Fjöltækniskólinn og Verslunarskóli Íslands, þó með þeim fyrirvara að ekki verði innheimt gjöld af nemendum umfram það sem gert er í dag.

Þingmaðurinn spyr einnig um tengsl þessara hugmynda við hugmyndir um svokallaðan fagháskóla. Um það vil ég segja að ég lít svo á að þarna sé um tvær ólíkar hugmyndir að ræða. Það kann vel að vera skynsamlegt að skilgreina sérstaklega nám sem er umfram framhaldsskólanám með sérstökum hætti, og að mínu mati nauðsynlegt. Nú þegar er að finna margvíslegt slíkt nám í íslenska skólakerfinu, nám sem er í raun hvorki framhaldsskólanám né formlegt háskólanám til háskólagráðu. Háskólarnir hafa til að mynda heimild til að leyfa öðrum að sinna ákveðnum námsháttum samkvæmt hinum nýju rammalögum um háskóla. Sú umræða er hins vegar sérstakt metnaðarfullt viðfangsefni sem ég tel ekki rétt að blanda saman við mat á því hvort rétt sé að sameina skólana tvo sem um er að ræða.

Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið einkennast af miklum metnaði og framsýni fyrir hönd Iðnskólans og iðnnáms í landinu. Þær hafa sömuleiðis fengið góðan hljómgrunn meðal þeirra hagsmunaaðila sem rætt hefur verið við þótt vissulega verði ávallt skiptar skoðanir meðal einstaklinga um mál sem þessi. Ráðuneytið hefur enn sem komið er ekki staðið að neinni formlegri kynningu á málinu meðal starfsfólks og nemenda, enda ekki fyrr en nú sem ég hef ákveðið að taka það formlega skref að vinna enn frekar að málinu. Skólameistarar skólanna hafa hins vegar kynnt þessar hugmyndir á eigin forsendum fyrir starfsfólki og nemendum skólans að viðstöddu starfsfólki menntamálaráðuneytis.

Ég tek einnig fram, frú forseti, að nemendur beggja skóla hafa sérstaklega fagnað þessum hugmyndum. Ef þetta skref er til þess fallið að efla starfs- og iðnnám tel ég rétt að taka það að því gefnu (Forseti hringir.) að hagsmuna Iðnskólans og nemenda hans verði gætt.