133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:41]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það mál sem hér hefur fyrirsögnina „Áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík“ er í rauninni þrjú mál í einu, jafnvel fjögur eða fimm, fyrir utan átakanlegan trassaskap ríkisvaldsins á þessu sviði í tíð núverandi ríkisstjórnar. Auðvitað hefur trassaskapurinn samt staðið lengur, reyndar áratugum saman.

Í fyrsta lagi er hér hugmynd um að sameina Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskólann. Það virðist vera gott mál, svo framarlega sem húsnæðis- og skipulagsþættir eru í lagi. Sameining getur styrkt starfið í báðum skólum og gefið nemendum þeirra aukin tækifæri, en þeir eru til fyrir nemendur sem við gleymum stundum í umræðunni.

Í öðru lagi er tillaga um að stofna til fagháskóla ofan á framhaldsskólana tvo. Það er góð tillaga sem við samfylkingarmenn höfum áður tekið undir og borið fram, m.a. í umræðunni um Tækniháskólann og HR, en þá skorti einmitt átakanlega heildarsýn um skipulag starfsnáms á framhalds- og háskólastigi. Ég er ekki undrandi á því að menntamálaráðherra hafi tekið þeirri hugmynd fremur illa í ræðu sinni áðan. (Menntmrh.: Það er ekki rétt.)

Í þriðja lagi er það svo þetta rekstrarform sem hér er kallað. Við jafnaðarmenn höfum hitt skólastjórana tvo út af þessu og líka nokkra forustumenn kennara í Iðnskólanum en það eina sem við höfum handfast eru fréttir í fjölmiðlum og nokkur útprent, lítill bæklingur með einstökum setningum, eins konar stikkorðum, og við höfum ekki aðra afstöðu til þess en þá að það þarf sterk rök til að taka opinberan skóla og setja hann í annarra hendur. Þau rök hafa enn ekki komið fram. Fátæklegar heimildir benda þó til þess að þetta áformaða hlutafélag hér sé líkara sjálfseignarstofnun en venjulegu fyrirtæki á markaði og málið virðist vera af nokkuð öðru tagi en gegndi um HR og THÍ á sínum tíma, t.d. er því lofað að ekki verði skólagjöld við skólana. Það eru ekki til lög um Iðnskólann í Reykjavík, hvað þá Fjöltækniskólann en það á ekki að hindra Alþingi í því að ræða málin miklu rækilegar en við höfum tækifæri til nú. Ég treysti því að menntamálaráðherra gefi Alþingi, því næsta, (Forseti hringir.) og næstu ríkisstjórn tækifæri til þess að ákveða nánar um þetta mál.