133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:45]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka frummælanda, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp. Ef hæstv. menntamálaráðherra hyggst sameina Iðnskólann í Reykjavík við Fjöltækniskólann, stærsta framhaldsskóla landsins, þá er hún væntanlega að einkavæða Iðnskólann. Það hljóta að vera mikil tíðindi, frú forseti. Miðað við þær upplýsingar sem hafa komið fram í umræðunni virðist samráði vera ábótavant í þessu máli, það er ekki samráð við kennara, það er ekki samráð við samtök iðnaðarmanna og það er ekki samráð við Alþingi. Það er rétt eins og Alþingi komi þetta hreinlega ekki við og ég efast um að það sé rétt, frú forseti, þar sem við erum að ræða um að einkavæða stærsta framhaldsskóla landsins, Iðnskólann í Reykjavík, sem telur tvö þúsund nemendur.

Samtök iðnaðarmanna hafa ályktað af þessu tilefni þar sem þeir segja m.a., með leyfi forseta:

„Fundurinn krefst þess að tryggt sé að jafnræði gildi milli aðila vinnumarkaðarins þegar ákveðið verði um áframhald málsins og aðild að stjórnun skólans. Miðstjórnin telur það algjöra forsendu þess að samstaða geti orðið um málið að það ríki jafnræði milli samtaka atvinnurekenda og samtaka iðnaðarmanna um aðkomu.“

Jafnframt segja þeir:

„Til að iðnnám sé sem best í takt við atvinnulífið hverju sinni þarf að vera þríhliðasamstarf skóla, samtaka launamanna og samtaka atvinnurekenda í hverjum iðngreinaflokki.“

Kennarar hafa líka látið í sér heyra og á fjölmennum fundi hjá þeim í Iðnskólanum mótmæltu þeir þessum áformum með 84% greiddra atkvæða og það er spurning hvort mark verði tekið á því. Verður haft samráð við kennara Iðnskólans í þessu máli og hver er síðan reynslan af rekstrarformi Fjöltækniskólans, frú forseti? Er komin næg reynsla og hver mun hafa faglegt eftirlit með þessum málum í framtíðinni?