133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Iðnskólinn í Reykjavík er einn stærsti framhaldsskóli landsins. Hann er með yfir tvö þúsund nemendur, 2.200 nemendur, og sérgreinar hans eru einmitt iðn- og tæknimenntun. Iðnskólinn hefur verið flaggskip iðnmenntunar og starfsmenntunar í landinu.

Hins vegar hefur iðnmenntun og starfsmenntun átt undir högg að sækja á síðustu árum, sérstaklega undir stjórn núverandi ríkisstjórnar. Okkur er minnisstætt frá því í haust þegar fjármagn til framhaldsskólanna var skorið niður á einu bretti um 400 millj. kr. Það var síðan þingið sem beitti atbeina sínum til þess að lækka þá upphæð, en niðurskurðaráformin lágu klárt fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Við þekkjum þetta um allt land þar sem starfsmenntun og iðnmenntun hefur átt undir högg að sækja til að halda hlut sínum hvort sem er í fjölbrautaskólum eða í sérstökum iðnmenntaskólum. Vandi iðnmenntunar er þess vegna skilningsleysi stjórnvalda og fjárskortur. Það var minnst hér á að það þyrfti hugarfarsbreytingu varðandi Iðnskólann. Já, það vantar hugarfarsbreytingu stjórnvalda gagnvart iðnmenntun í landinu. Það er mjög fátækleg aðferðafræði að ætla að svelta skóla, svelta Iðnskólann til einkavæðingar, til þess að segja: „Bíddu, það er allt betra en að vera í svona fjársvelti og ef við eigum meiri hljómgrunn hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar með því að einkavæða skólann verðum við þá ekki að gera það?“

Nei, það þarf miklu meiri metnað en hér er á ferðinni af hálfu ráðherrans. Að efla iðnmenntun, það er markmiðið. Ég spyr ráðherrann: Er það ætlun ráðherrans að keyra þetta í gegn nú fyrir vorið? Ég efast um að hún hafi lagalegar heimildir til þess að keyra í gegn einkavæðingu á einum stærsta iðnskóla landsins. Ég líka spyr framsóknarmenn sem voru nýverið að álykta á flokksþingi sínu að tíma einkavæðingar á almannaþjónustu væri lokið: Ætla (Forseti hringir.) þeir að samþykkja einkavæðingu á rekstri stærsta iðnskóla landsins, frú forseti?