133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum hér að ræða mjög mikilvægt mál, hvernig við ætlum að efla starfs- og verknám í landinu. Ég vara við að við förum einhverjar flýtileiðir og förum vanbúnar eða vanhugsaðar leiðir. Við höfum orðið vitni að því að núverandi hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt í leiðangra án þess að vera búin að hugsa það til enda hvernig hún ætli að lenda málum og án nokkurs samráðs við þá sem starfa í menntastofnunum. Þá vil ég minna á þegar stytta átti nám til stúdentsprófs um eitt ár en það mál hefur einhvern veginn gufað upp í höndunum á hæstv. ráðherra.

Varðandi það mál sem við ræðum nú og er mjög mikilvægt, þá eigum við að fara rækilega yfir hvernig til hefur tekist t.d. við Fjöltækniskólann, vegna þess að ég hef heyrt að margt gott fari þar fram og margt sé ágætt en það er vissulega áhyggjuefni hversu fáir innrita sig á skipstjórnarsvið. Það er áhyggjuefni fyrir Íslendinga sem eru fiskveiðiþjóð í miðju Atlantshafinu að svo fáir sæki þetta nám. Mér finnst að við þurfum að fara yfir þessa hluti, hvernig við eigum að efla aðsókn að skólanum. Ég er ekkert viss um að sú leið sem hér er bent á, að sameina hann Iðnskólanum, sé best, ekkert endilega, það geta verið aðrar leiðir. Það ætti einmitt að vera forgangsatriði að kanna hvaða leiðir komi til greina.

Það virðist því miður vera svo að Sjálfstæðisflokkurinn forðist umræðu um undirstöðuatvinnugrein útflutnings Íslendinga, t.d. sjávarútvegsins, og þegar talið berst að því þá er talið fært að allt öðru. Ég vil nefna hér að ég hef ítrekað spurt hæstv. ráðherra út í fiskvinnslunámið, hvort það eigi að koma því á legg á ný og það hafa engin svör komið frá hæstv. ráðherra.

Ég vil ítreka að það er margt gott sem fram fer í báðum skólunum og það kemur vel til greina að skoða ýmislegt en ég er ekkert endilega viss um að þær hugmyndir (Forseti hringir.) sem hér eru séu lykillinn að því að lenda þessu í góðri sátt vegna þess að því miður, þegar (Forseti hringir.) farið er af stað í einhverjum flýti þá er lendingin (Forseti hringir.) ekki alltaf farsæl.