133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Margt athyglisvert hefur komið hér fram. Það er ekki bara að stjórnarandstaðan tali tungum tveim heldur tungum þrem. Vinstri grænir hafa sína stefnu, þeir eru einfaldlega á móti einkaaðilum í rekstri á skólastarfi. Þeir greiddu atkvæði á móti sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík, sem var studd dyggilega af atvinnulífinu. Svo koma hér þingmenn upp og segja að það hafi ekkert samráð verið haft við atvinnulífið. Atvinnulífið vildi m.a. fá þessa sameiningu í gegn og það er gott að hér sé dregið fram, frú forseti, að Samfylkingin, stjórnarandstaðan gat ekki stutt sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík. Hún gat ekki stutt metnaðarfulla rammalöggjöf sem allt háskólasamfélagið hefur fagnað. Ekki gat Samfylkingin stutt það, hvað þá Vinstri grænir. Nú er komið að því að við erum að hlusta á það sem atvinnulífið, sem skólasamfélagið er að tala um, það þarf að efla enn frekar iðn- og starfsnám. Við ákváðum það á sínum tíma að stofna starfsgreinaráðin, af hverju? Til þess að efla tengingarnar við atvinnulífið. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu þurftum við að hafa betri tengingar við atvinnulífið.

Nú tel ég að það sé rétt að taka næsta skref og skoða þetta með formlegum hætti. Við höfum verið að skoða þetta með óformlegum hætti, verið að hlusta á það sem kennarar hafa að segja, við höfum upplýst Kennarasambandið um gang mála, og þess vegna tel ég rétt að taka formlegt skref í þá veru að skoða þessa sameiningu, vinna að henni með það í huga að hafa fullt samráð við þá aðila sem málinu tengjast. En enn og aftur kemur það í ljós að þegar til kastanna kemur hefur Samfylkingin — hér voru tveir talsmenn Samfylkingarinnar, frú forseti, og þeir gátu ekki einu sinni komið sér saman um það að taka afstöðu til málsins heldur voru með eitthvert yfirlætislegt blaður. Tveir talsmenn Samfylkingarinnar voru hér og töluðu tungum tveim. Enda geta þeir ekki tekið afstöðu með því hvort einkaaðilar séu góðir í rekstri skóla eða ekki, þeir treysta sér ekki til þess. (Gripið fram í.) Þeir treysta sér ekki til þess að taka afstöðu með því að segja að fjölbreytt rekstrarform geti leitt til þess og þessu tilviki stuðlað að því (Gripið fram í.) að við fáum hér öflugra iðn- og starfsnám. (Forseti hringir.) Þess vegna vil ég hvetja menn til þess að vinna að þessu máli, að stjórnarandstaðan komi (Forseti hringir.) enn frekar að þessu máli og ég tek (Forseti hringir.) undir með þingmanni Framsóknarflokksins (Forseti hringir.)

(Forseti (JóhS): Ræðutíminn er búinn.)

og tel það einboðið að við tökum öflug skref til þess að efla iðn- og starfsnám.