133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:20]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra flytur hér, um að framlengja frest á vörugjöldum af svokölluðum metanbílum, er góðra gjalda vert en það vekur athygli mína að í frumvarpinu er aðeins talað um metangasbíla en eingöngu er hægt að fá metangas á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki fáanlegt annars staðar og þó að þetta sé auðvitað sjálfsögð niðurfelling gagnast hún eingöngu þar.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvers vegna svokallaðir tvinnbílar koma ekki inn í þetta undanþáguákvæði. Þá er ég að ræða um bíla sem ganga bæði fyrir bensíni og rafmagni. Það mundi gagnast fleiri Íslendingum en eingöngu þeim sem nota metangasbíla út frá því sem ég sagði áðan um það hvar hægt er að fá áfyllingu. Spurning mín í fyrsta andsvari við hæstv. ráðherra er annars vegar um tvinnbílana og hins vegar tek ég eftir því að niðurfellingin á vörugjaldinu féll niður að mig minnir 1. janúar eða 1. desember síðastliðinn, þessi undanþága, og þá er spurningin: Hvað hefur verið að gerast á þessum tíma, fram að þessum tíma ef þetta frumvarp verður nú samþykkt? Er gat þarna á milli? En fyrst og fremst er varðar spurning mín tvinnbílana.