133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna auðvitað því frumvarpi sem hér er fram komið en vek aftur athygli á því að þessar metangasbifreiðar verða fyrst og fremst fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Tvinnbílarnir mundu gagnast Íslendingum öllum, sama hvar þeir búa. Þess vegna segi ég að enn einu sinni er verið að koma með frumvarp sem skekkir svolítið samkeppnishæfni landsmanna, ef svo má að orði komast. Íbúar landsbyggðarinnar sitja ekki við sama borð hvað þetta varðar. Það er rétt að hafa það í huga. Þess vegna tel ég fulla ástæðu til að taka tvinnbílana inn líka og byrja á að lækka vörugjald af þeim.

Hæstv. ráðherra talar um markmiðin sem hér eru sett fram, þ.e. umhverfisleg markmið. Má ég aðeins, virðulegi forseti, vekja athygli þingheims og hæstv. ráðherra á því að undanfarið hefur átt sér stað alveg óheyrilegur innflutningur á svokölluðum pallbílum sem eru 5 tonn og yfir og eru flokkaðir sem vörubílar, litlir vörubílar. Þeir bera ekkert vörugjald, ekki neitt. Þetta eru bensínhákar með 6 og upp í 7,3 í slagrými og eyða upp undir 25 lítrum af bensíni í innanbæjarkeyrslu.

Væri ekki full ástæða til þess, og ég spyr hæstv. fjármálaráðherra út í það, að breyta þessu ákvæði og hækka e.t.v. vörugjaldið og koma þá á móts við tvinnbílana og lækka vörugjaldið þar í staðinn þannig að nettóstaða ríkissjóðs væri söm, vegna þess að ég veit og hef oft heyrt hæstv. fjármálaráðherra tala um að honum sé mjög umhugað um það.

Virðulegi forseti. Ég tók þetta sem dæmi, pallbíla sem flokkaðir eru sem vörubílar, 5 tonn og stærri. Ef við tökum pallbíla sem eru undir 5 tonn bera þeir aðeins 13% vörugjald meðan fólksbílar bera 30% og stærri fólksbílar og jeppar 45% vörugjöld.

Hefur ekki komið til tals, virðulegi forseti, að breyta þessu með pallbílana, þessa bensínháka, vegna þeirra sjónarmiða sem koma fram í þessu frumvarpi sem eiga að vera umhverfisvæn og umhverfislega sinnuð?