133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:55]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki vil ég efast um að hv. þingmaður hafi góðan hug þegar umhverfismálin koma á dagskrá og vilji gjarnan að hlutirnir gangi hratt fram þar en þetta minnir mig aðeins á það þegar einhver kemur með góða og snjalla hugmynd og annar kemur og segir: Já, mér var einmitt búið að detta þetta hug. Það getur vel verið að honum hafi dottið það í hug en hann kom bara ekki fram með hugmyndina og framkvæmdi hana ekki.

Það sem skiptir máli í þessu er að framkvæma hlutina. Ef eitthvað er hægt að segja um Sjálfstæðisflokkinn þá framkvæmir hann þá hluti sem hann talar um. Hann talar um þá hluti sem honum dettur í hug og hann framkvæmir þá hluti sem hann talar um. Því geta kjósendur ævinlega treyst.