133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra vill meina að framkvæmdamennirnir séu í Sjálfstæðisflokknum. Það má til sanns vegar færa ef horft er suður í Kópavog þar sem framkvæmdamaðurinn Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, hefur tekið til hendinni í Heiðmörk, reyndar við lítinn fögnuð umhverfisverndarsamtaka og þeirra sem láta sér annt um umhverfið. Það er því ekki það sama að framkvæma og framkvæma. En ég get alveg lofað hæstv. ráðherra því að þegar við vinstri græn fáum tækifæri til að setjast í ráðherrastóla og véla með þau mál sem nú eru á verksviði og borði hæstv. ráðherra munu verða tekin róttækari skref. Þá mun verða gengið lengra í að nýta sé hagræna hvata til að tryggja að hér sé iðkuð sú stefna sem menn í orði kveðnu segjast vilja keyra, þ.e. það verða sett mælanleg markmið um það á hvern hátt dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda og við munum byrja á samgöngunum.