133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:59]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé enga ástæðu fyrir hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson til að æsa sig hér upp úr skónum af þessu tilefni. Ég vísa því til föðurhúsanna að ég hafi farið rangt með. Ef ég les bak við æsinginn í hv. þingmanni sýnist mér við vera tala um nákvæmlega sömu hluti. Meðan Reykjavíkurlistinn fór með stjórn Orkuveitunnar voru mjög margir hlutir gerðir hjá Orkuveitunni sem horfðu til betri vegar í umhverfismálum, m.a. fékk fyrirtækið ISO-vottunina sem er af umhverfislegum toga, þ.e. það var meðvitund í umhverfismálum innan Orkuveitunnar í tíð Reykjavíkurlistans. Er hv. þingmanni fyrirmunað að viðurkenna það? Mér heyrðist honum vera það í raun og veru með orðum sínum áðan.

Ég viðurkenni fúslega að það skref sem tekið var eftir að hv. þingmaður var orðinn stjórnarformaður, sem fólst í því að setja bifreiðar Orkuveitunnar yfir á vistvæna orkugjafa, var til fyrirmyndar. Mér finnst ekki erfitt að viðurkenna það. Ég skil því ekki þennan æsing í hv. þingmanni.