133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[15:00]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir orð hennar hér. Það sem ég er afskaplega ósáttur við er þegar menn hafa, og það hafa vinstri menn stundum gert, lagt málin upp með þeim hætti að sjálfstæðismenn hafi ekki áhuga á umhverfis- og náttúruvernd. Það sem menn gagnrýna sjálfstæðismenn harðlega fyrir er að við höfum ekki talað nógu mikið um hvað við höfum gert.

Varðandi fyrirtækin þá eru þau stærstu umhverfisverkefni okkar Íslendinga, þ.e. veitufyrirtækin í Reykjavík og annars staðar á landinu. Núna byggjum við á þekkingu, hátækniþekkingu sem er eftirsóknarverð um allan heim og er ásókn í og nú þegar erum við farin að selja þá þekkingu.

Það er auðvitað löngu fyrir mína tíð og tíma hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem þessi fyrirtæki fóru að stíga stór skref í umhverfismálum. En það sem við höfum gert, og það er gott að hv. þingmaður er meðvituð um það, frá því við tókum við þessum frábæru fyrirtækjum, að við höfum lagt alla áherslu á umhverfismál, sem m.a. komu fram í Úlfljótsvatnsmálinu, sem m.a. komu fram um mælanleg markmið varðandi bílana, sem m.a. kom fram í því að við erum að fara í samvinnu eða farnir í samvinnu við háskólana um umhverfis- og orkurannsóknir til að viðhalda þessari þekkingu sem heimurinn þarf á að halda núna ef menn ætla að ná einhverjum árangri í loftslagsmálum. Þetta er allt að því séríslensk þekking sem snýr að vinnslu á umhverfisvænum orkugjöfum, og sérstaklega þá heitu vatni.

Það má skamma okkur fyrir ýmislegt, m.a. það að hafa ekki talað um þetta. En ég er afskaplega sáttur við það og finnst það sanngjarnt af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að hún gengst við því og það er ekkert sjálfgefið þegar menn eru í pólitík og ég þakka hv. þingmanni fyrir það.