133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[15:44]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í sambandi við rangar tölur hvað varðar olíugjaldið þá hef ég bent á að þau áform sem sett voru fram í þáverandi samgönguáætlun, vegalögum og annars staðar, stemmdu heldur ekki saman við það sem kom fram í fjárlagafrumvarpi hæstv. ráðherra. Þar munaði töluvert miklu og sá munur hefur ekkert gert nema að aukast. Ég vil geta þess, virðulegi forseti, að ég er að ræða þetta hér vegna þess að olíugjaldið hefur hækkað mjög verð á dísilolíu og gerir það miklu hærra en það ætti að vera ef olíugjaldið hefði verið sett lægra og þess vegna er sá efnahagslegi hvati sem átti að fylgja upptöku þessa gjalds, m.a. til að minnka losun óæskilegra gróðurhúsalofttegunda af bifreiðanotkun landsmanna, ekki gengið eftir. Það er þetta sem ég er að tala um og því segi ég að þeir 50 millj. lítra sem þarna munaði eða eru í olíugjaldinu eru hvorki meira né minna en að gefa ríkissjóði 2 milljarða. Má ég t.d. benda á eitt að bara virðisaukaskatturinn af þessari aukningu er hvorki meira né minna enn 400 millj. kr. á ársgrundvelli. Ég er einfaldlega að spyrja hæstv. ráðherra út í það vegna þess að það var greinilega unnið með kolrangar tölur í fjármálaráðuneytinu, viljandi eða óviljandi, að olíugjaldið var sett af þannig að hinn efnahagslegi hvati rann út í sandinn sem kemur svo í ljós í því að dísilbifreiðum hefur ekki fjölgað eins mikið og ætlað var og þau áform nást ekki.

Hvað varðar heimsmarkaðsverðið þá er það eitthvað sem við vissum en spurningin getur kannski verið sú: Eru tölurnar sem ég nefndi hér varðandi olíugjaldið ekki full ástæða til þess, virðulegi forseti, að hæstv. fjármálaráðherra beiti sér fyrir frekari lækkun á olíugjaldinu til að auka líkur á því að landsmenn skipti meira yfir í dísilknúna bíla og þá kannski alveg sérstaklega litla dísilknúna bíla?