133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[15:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því, eins og fleiri þingmenn sem tekið hafa til máls, að fagna frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum. Hér er verið að stuðla að því að auka notkun metangass á bíla með því að fella niður vörugjald af bílum sem nota metangas. Ég tel að þetta sé mjög jákvætt en sé því miður ekki nema hluta af miklu stærri heild sem við þurfum að skoða. Ég skil vel kvartanir hæstv. fjármálaráðherra yfir því að við séum að teygja umræðuna út fyrir það sem efni frumvarpsins hljóðar upp á. En þetta er bara svo lítið brot af miklu stærra máli og þó svo við fögnum því öll að þessi leið skuli vera farin þá vantar svo miklu meira upp á.

Hæstv. forseti. Til að nefna það aðeins frekar varðandi metangasið þá getum við spurt í fyrsta lagi: Hvers vegna erum við að þessu öllu saman? Hvers vegna erum við að leggja mismunandi gjald á eldsneyti? Hvers vegna er verið að stuðla að því að leggja mismunandi gjöld á bifreiðar? Hvers vegna er verið að hafa áhrif á það hvernig ökutæki og aksturslag landsmanna er? Svarið er einfalt. Það er vegna þess að við vitum í dag, sem við vissum ekki fyrir 20–30 árum, þ.e. almenningur, þó margir vísindamenn hafi á þeim tíma verið farnir að sýna fram á breytingar á andrúmsloftinu, að þetta er þróun sem maðurinn sjálfur stuðlar að. Með brennslu á olíu og lífrænum efnum erum við að auka útblástur efna sem við köllum í dag gróðurhúsalofttegundir sem valda hlýnun loftslags. Ef ekkert verður að gert mun það hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir allt mannkyn, bæði hvað varðar lofthjúpinn og hafið og búsetuskilyrði á jörðinni. Okkur ber skylda til að horfa til þessa og skoða hvað við getum gert. Sem betur fer er mjög margt sem við getum gert hér á landi og haft áhrif á að sé gert hnattrænt.

Metangasið er, eins og fram kemur í frumvarpinu, mjög mengandi gas hvað snertir gróðurhúsalofttegundir og áhrif þess á hlýnun gufuhvolfs og jarðar og okkur ber að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr losun metangass. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti og þar sem metangasið myndast við rotnun lífrænna efna er í fyrsta lagi mjög þarft að við stundum miklu betur flokkun á úrgangi og stuðlum að betri nýtingu á lífrænum efnum til moltugerðar og eins að við skipuleggjum urðunarstaði þannig að hægt sé að einangra og nýta metangasið sem frá þeim kemur. Ég tel mikilvægt, og það hefði átt að koma fram í greinargerð, að hafa einhverja framtíðarsýn á það hvernig nota eigi metangas á öðrum stöðum en eingöngu í Sorpu í Reykjavík eða fyrir höfuðborgarsvæðið. Svo gott sem þetta er þá erum við með urðunarstaði vítt og breitt um landið og það er hluti af þessum pakka. Til þess að hvetja til notkunar á metangasi á bifreiðar þarf að koma til stuðningur við önnur sveitarfélög til þess að vinna metangasið og nýta það sem orkugjafa víðar um landið en ekki síður að horfa á þessa heildarmynd, að einangra metangasið og brenna það þannig að það valdi ekki þessari mengun í gufuhvolfinu sem það gerir þegar það fer óbeislað út í andrúmsloftið. Þetta hvort tveggja varnar því að það fari út í andrúmsloftið og þar að auki á að nýta það til brennslu á bifreiðar. Það þyrfti þá að stuðla að því að það sé mikið á hinum stærri sorpurðunarstöðum úti um land.

Hvað varðar aðrar tegundir bíla og aðrar tegundir orku þá tek ég undir það sem hér hefur komið fram, að við höfum í dag hina svokölluðu tvinnbíla sem nota bæði rafmagn og bensín sem uppfylla þau skilyrði sem stjórnvöld hafa lagt fram og eru í ýmsum alþjóðlegum samningum að hvetja til notkunar á sparneytnum bílum sem nota vistvæna orku. Það eru tvinnbílarnir svo sannarlega því bæði nota þeir vistvæna orku, sem sé rafmagnið, og síðan eru þeir mjög sparneytnir þannig að bensínnotkunin er lítil. Til að sýna trúverðugleika tel ég að á því tímabili sem hér er rætt um, til ársloka 2008, sem á að vera eins og ég skil þetta frumvarp til að meta árangurinn af lækkuðum vörugjöldum á bíla sem nota metangas, þá tel ég alveg tvímælalaust að bæta ætti tvinnbílunum undir þessar sömu ívilnanir. Það verður að nota hagræna hvata til þess að fá almenning til þess að nota vistvæna bíla og vistvæn ökutæki.

Við Íslendingar höfum verið nokkuð bjartsýn hvað það varðar að reyna notkun vetnisbifreiða og höfum haft almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu sem hafa gengið fyrir vetni. Því miður virðist þróun á því sviði ganga hægar en bjartsýnir menn höfðu vonað og ég tel að það verði lengra í það að vetnisbílar verði almennt komnir á götuna. Ef þetta verða raunhæfir möguleikar í framtíðinni þá hvet ég líka til þess að vatnsorka og hin hreina orka sem við búum yfir, vatnsorka í rennslisvirkjunum og eins gufuafli, verði nýtt m.a. í þessu sambandi. Við höfum takmarkaðar orkulindir og við margnýtum ekki sömu orkuna til mismunandi hluta. Ég tel að okkar hreinu orku væri vel varið í framtíðinni með slíkri tækni.

Hvað varðar olíugjaldið og það að hvetja til þess að almenningur noti frekar dísilbíla, og þá sérstaklega minni dísilbíla, þá er alveg ljóst að verðmunur á dísilolíu og bensíni er allt of lítill til þess að hagrænir hvatar séu til staðar. Þegar lagt var upp með breytinguna á þungaskatti yfir í olíugjald var hugmyndin sú að það yrði hvati til notkunar á dísilolíu og hvati til að auka þá hlutdeild dísilbíla en það hefur ekki orðið. Dísilbílar eru í eðli sínu enn dýrari í framleiðslu en bensínbílar en nýrri bílar eru mengunarlitlir en það sem hefur áhrif er hið háa olíugjald þannig að það er enn þá lítill sem enginn hvati til þess að auka hlutdeild lítilla og sparneytinna dísilbíla sem ég tel að þurfi að skoða sérstaklega í þessari heildarsýn.

Ég styð frumvarp hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur hvað varðar litla vörubíla eða pallbíla eða það sem er miklu frekar litið á sem ígildi stórra jeppa með litlum palli en það eru bílar, flestir amerískir litlir pallbílar, sem hefur fjölgað mjög á götunum. Þetta voru á tímabili vinsælir fjölskyldubílar, bensínhákar framleiddir í Bandaríkjunum þar sem lítil gjöld eru lögð á bensín og þar af leiðandi hefur almenningur ekki mikinn áhuga á því að velja sér eða hvetja til framleiðslu á sparneytnum bifreiðum. Það voru margir sem notfærðu sér það að tollar voru lægri á þessum tegundum bíla og á því tímabili sem gengi krónunnar var hátt og það var mjög hagstætt að versla frá Bandaríkjunum jókst innflutningur á þessum bílum. Ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, að langflestir þeirra eru notaðir sem fjölskyldubílar, sem stórir og kraftmiklir jeppar. Ég hef ekki séð neina úttekt á þessu. Ég hef eingöngu séð hvernig þeir eru notaðir á götum borgarinnar, þar virðast þeir ekki vera fyrirtækjabílar og notaðir sem aflmiklir fjölskyldubílar í stað jeppa. Auðvitað þarf að horfa á þennan lapsus í löggjöfinni og stuðla ekki að því eða hvetja a.m.k. ekki til þess að innflutningur á þessum bensínhákum sé langt umfram það sem eðlilegt er.

Það væri margt fleira hægt að segja í þessu sambandi en það er alveg ljóst að það að vera umhverfisvænn fyrir hæstv. fjármálaráðherra kemur við pyngjuna því að ríkissjóður hefur miklar tekjur af innflutningi á bensíni og olíu og tekur af þeim mikla tolla og skatta þannig að ef fjármálaráðherra er að hvetja til breytinga annaðhvort á vörugjöldum eða virðisaukaskatti af bifreiðum eða til notkunar á vistvænni ökutækjum er ríkissjóður á sama tíma að tapa tekjum. En það er spurning, hæstv. forseti, hvort hæstv. fjármálaráðherra sé ekki svo víðsýnn, eða a.m.k. sá fjármálaráðherra sem við tekur í nýrri ríkisstjórn, að horfa á heildaráhrifin og horfa á umhverfisáhrifin, horfa á mengunina og horfa á alþjóðlegar skuldbindingar og sjá að þegar dæmið er gert upp þá muni minni tekjur af olíuinnflutningi og sölu beint í ríkissjóð skila sér í gróða á öðrum sviðum.