133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

breyting á XIX. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[16:47]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 92/2006, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Jón Ögmund Þormóðsson og Atla Frey Guðmundsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Tryggva Axelsson frá Neytendastofu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 92/2006 frá 7. júlí 2006, um breytingu á XIX. viðauka, Neytendavernd, við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB), nr. 2006/2004 frá 27. október 2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd, reglugerð um samvinnu um neytendavernd.

Reglugerð 2006/2004 varðar samvinnu milli innlendra yfirvalda sem ábyrgð bera á framkvæmd laga um neytendavernd. Meginmarkmið hennar er að tryggja eftirfylgni við lög á sviði neytendaverndar og virkni innri markaðarins með því að koma á samstarfi stjórnvalda yfir landamæri en gildissvið reglugerðarinnar nær aðeins til brota á löggjöf um neytendavernd. Samvinna stjórnvalda felst í ýmiss konar aðstoð, t.d. virkri miðlun upplýsinga, rannsókn, heimsókn á starfsstöð fyrirtækis eða jafnvel beitingu þvingunarúrræða.

Lagafrumvörp sem ætlað er að innleiða reglugerðina í íslenskan rétt hafa verið til meðferðar á Alþingi, þskj. 916, 616. mál og þskj. 917, 617. mál og mælti efnahags- og viðskiptanefnd með samþykkt þeirra á fundi 8. mars sl.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir hana rita Jón Kristjánsson, formaður og framsögumaður, Össur Skarphéðinsson, Drífa Hjartardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.