133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:01]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. formaður allsherjarnefndar hefur mælt fyrir nefndaráliti frá meiri hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Ég tel að það ætti kannski að prenta nefndarálitið upp því að mér skildist að við værum á málinu með fyrirvara. Ég var að vísu ekki við lokaafgreiðslu nefndarálits í nefndinni en var hins vegar við afgreiðslu breytingartillögu í nefndinni. Formaður nefndarinnar hefur farið yfir meginatriðin sem rædd voru vegna þessara mála en við fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni höfum þegar lagt til tvær breytingar við frumvarpið.

Í fyrsta lagi varðandi flóttafólk og dvalarleyfi af mannúðarástæðum en það var heilmikið rætt í nefndinni og margar umsagnir hnigu að því að það þyrfti að skoða sérstaklega, eins og hv. formaður gerði hér grein fyrir. Við leggjum til breytingu í þá veru, um dvalarleyfi af mannúðarástæðum og að tekið sé sérstakt tillit til aðstæðna flóttamanna.

Í öðru lagi varðandi fjárhagsaðstoð en í núgildandi lögum, áður en þessar tillögur komu fram, mátti fólk ekki hafa þegið fjárhagsaðstoð síðustu tvö ár til þess að geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt. Í því frumvarpi sem hér á verða að lögum og nefndarálitið lýtur að er talað um þrjú ár. Það er búið að lengja þann tíma um eitt ár. Við erum ekki sammála því og þar sem ég sat í þeirri nefnd sem samdi það frumvarp sem hér er verið að afgreiða þá var það greinilega gert á síðustu metrunum en ég missti af því. Þess vegna er sú breytingartillaga flutt að tvö ár í þessu tilviki sé alveg ríflegur tími fyrir það til að geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt. Það eru yfirleitt mjög skýrar ástæður fyrir því af hverju viðkomandi einstaklingar fá fjárhagsaðstoð. Það getur verið að þeir séu illa tryggðir. Þeir fái ekki bætur frá Tryggingastofnun vegna veikinda og þá hafi komið til kasta sveitarfélaga í þessum efnum. Jafnframt hef ég alltaf lagt áherslu á að horfa á félagsþjónustu sveitarfélaga sem neðsta öryggisnetið og það eigi í rauninni alltaf að skoða þau mál sérstaklega ef fólk hefur þurft að nýta sér slíka aðstoð.

Síðan þekkja allir umræðuna um íslenskunámið, það skilyrði á ekki að taka gildi fyrr en eftir tvö ár en við munum ekki taka afstöðu til þess við lokaafgreiðslu málsins. Ég læt því máli mínu lokið, herra forseti.