133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og eins og kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar, Bjarna Benediktssonar, er ég áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd. Þetta er eitt af þeim málum sem við tókum nokkurn tíma í að skoða í nefndinni. Það sem skiptir máli í þessu tilliti að mínu mati eru í raun og veru þeir þættir sem lúta að íslenskukennslunni og kröfunni um íslenskukunnáttu þeirra sem sækja um og fá íslenskan ríkisborgararétt en í c-lið 5. gr. frumvarpsins eru tilgreind ýmis skilyrði sem umsækjandi um ríkisborgararétt þarf að uppfylla. Meðal annars þarf hann að hafa staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem dómsmálaráðherra setur í reglugerð og þar segir jafnframt að í reglugerð skuli kveðið á um undanþágur fyrir þá sem telja verði ósanngjarnt að gera þessa kröfu til. Í athugasemd við 5. gr. segir að einkum hljóti að koma til greina að undanþiggja þá einstaklinga skilyrði um íslenskukunnáttu sem flust hafi til landsins eftir miðjan aldur og sömuleiðis fólk sem býr við einhverja fötlun sem veldur því að krafan um íslenskukunnáttu kann að vera óraunhæf. Ég er sátt við þau sjónarmið sem getið er um í athugasemdum við frumvarpið en ég tel að við þurfum að hafa í huga ýmsa þætti þessara mála þegar ríkisborgararétturinn er skoðaður. Ég held að það sé nauðsynlegt að við tökum tillit til ýmissa annarra hópa en þeirra sem taldir eru í texta greinargerðarinnar. Þar er ég með í huga fólk sem kemur frá málsvæði sem er gerólíkt okkar íslenska eða norræna málsvæði, sömuleiðis held ég að viðurkenna þurfi að það kunna að vera tilfelli þar sem fólk er hvorki læst né skrifandi á eigið tungumál. Ég sé því ekki annað en að þessi undanþáguheimild verði að vera svo rúm að þar sé horft af allri sanngirni á málin.

Við fengum umsögn frá Mannréttindaskrifstofu sem var efnismikil og góð. Það skiptir verulegu máli þegar fjallað er um mál af þessu tagi að við eigum stofnanir og skrifstofur á borð við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það skiptir verulegu máli fyrir okkur þingmenn sem sitjum í nefndunum að fá það sjónarhorn sem Mannréttindaskrifstofan varpar á meginþætti þessa máls því að sjónarhorn hennar er að mínu mati þess eðlis að það skiptir verulegu máli fyrir nefndina að taka til umfjöllunar þá vinkla sem þar er varpað upp. Þetta á t.d. við um það sem segir um ríkisfangslausa í umsögn Mannréttindaskrifstofu og sömuleiðis um frystingu ríkisborgararéttar sem hv. þm. Bjarni Benediktsson kom að í sínu máli.

Varðandi það sem lýtur að íslenskukunnáttunni þá segir eftirfarandi í umsögn Mannréttindaskrifstofu, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum við þetta ákvæði segir að þeir sem undanþegnir verða þessu skilyrði“ — og þá er talað um skilyrði til íslenskukunnáttu — „hljóti einkum að vera þeir sem flust hafa til landsins nokkuð eftir miðjan aldur auk þeirra sem búa við einhverja fötlun sem gerir kröfu um góða íslenskukunnáttu óraunhæfa. Mannréttindaskrifstofan tekur undir þetta en leggur til að sérstakt tillit verði tekið til flóttafólks og þeirra sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum þar sem þessir einstaklingar hafi gjarnan þurft að þola miklar raunir sem geta skert getu þeirra til íslenskunáms. Þá ber einnig að taka tillit þeirra sem koma frá málsvæðum sem eru mjög ólík okkar og þeirra sem ekki eru ólæsir og skrifandi við komuna til Íslands.“

Nefndin ákvað að taka mið af þessari umsögn Mannréttindaskrifstofu sem taldi varhugavert að lögfesta slíkt ákvæði að svo stöddu jafnvel þó að því hafi verið ætlað að taka gildi 2009. Mannréttindaskrifstofa notaði tækifærið í umsögn sinni og fagnaði auknum fjárframlögum stjórnvalda til íslenskukennslu en enn sem komið er telur skrifstofan að framboð námsleiða einkum á landsbyggðinni sé takmarkað og telur að námskeiðin sem í boði eru séu kostnaðarsöm. Mannréttindaskrifstofa leggur áherslu á að verði skilyrðið um íslenskukunnáttu lögfest þá sé brýnt að tryggt sé að framboð, aðgengi og gæði íslenskunámskeiða sé þannig háttað við gildistöku að sanngjarnt sé að gera kröfu um skilgreinda íslenskukunnáttu við veitingu ríkisborgararéttar.

Skrifstofan leggur það til í umsögn sinni að farið verði að dæmi Norðmanna en í Noregi mun það vera svo að það er valkvætt hvort umsækjendur þreyta próf til að sýna fram á tungumálakunnáttu eða leggja fram sönnun um að þeir hafi sótt tiltekinn fjölda námskeiða í málinu.

Varðandi þetta og sérstaklega stöðu tungumálakennslunnar annars staðar á Norðurlöndunum þá er ljóst að bæði Danmörk og Noregur hafa staðið sig afar vel í þeim tilboðum sem útlendingum standa til boða og þar eru bæði fjölbreytt námsframboð og sömuleiðis mikil greiðsluþátttaka stjórnvalda og munu kennslustundirnar sem veittar eru endurgjaldslaust vera á milli 2.000 og 3.000 talsins á sama tíma og við höfum verið að puða við að ýta þeim upp í milli 100 og 200. Við sjáum að hér er himinn og haf á milli þess sem ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa verið að leggja í þetta miðað við það sem við höfum verið að gera á Íslandi.

Minni hluti nefndarinnar, þ.e. hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson, leggja fram breytingartillögu við málið og einmitt við 5. gr. Þar er gert ráð fyrir að við a-lið greinarinnar bætist ný málsgrein sem verði 3. mgr. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hafi gert grein fyrir þessari breytingartillögu í máli sínu áðan en ég heyrði því miður ekki ræðu hennar þannig að ég tel ástæðu til að fara um þetta nokkrum orðum en tillagan gerir ráð fyrir því að við a-lið 5. gr. bætist svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er dómsmálaráðherra heimilt að taka sérstakt tillit til aðstæðna flóttamanna og fólks sem veitt hefur verið dvalarleyfi af mannúðarástæðum.“

Ég er fylgjandi þessari breytingartillögu og sömuleiðis þeirri tillögu sem þeir hv. þingmenn sem að breytingartillögunni standa leggja fram í b-lið hennar: „Í stað orðanna „þrjú ár“ í 5. tölul. 1. mgr. c-liðar komi: tvö ár.“ En í 5. tölul. segir:

„Umsækjandi geti framfleytt sér hérlendis og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi sl. þrjú ár. Er umsækjanda skylt að sýna fram á að hann hafi framfært sig með löglegum hætti hér á landi og er dómsmálaráðuneytinu heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar.“

Um þetta vil ég segja, hæstv. forseti, að ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt í mjög mörgum tilfellum og kannski langflestum að það kunni að koma þeir tímar að útlendingar sem hér eru að reyna að fóta sig og eru komnir hingað til að gerast íslenskir ríkisborgarar þurfi að leita til stjórnvalda með framfærslustuðning og ekkert óeðlilegt við það, þannig að takmarkanir af þessu tagi eru að mínum dómi óeðlilegar og mér finnst sómi að því að við höfum þær sem allra minnstar. Við verðum að hafa ákveðið svigrúm í þessum efnum þannig að hægt sé að meta hvert tilvik. Ég skil vel og það er ekkert óeðlilegt þótt reynt sé að vinsa úr ef um er að ræða fólk sem misnotar sér kerfið en við verðum að reyna að sjá í gegnum fingur við það og skoða hvert tilvik með opnum huga og sýna þá mannúð sem eðlileg hlýtur að teljast í þeim tilvikum sem hér er um rætt.

Við vinstri græn höfum verið að vinna að því í vetur að endurnýja innflytjendastefnu okkar. Við samþykktum á landsfundi okkar fyrir þremur vikum ályktun sem varðaði innflytjendamálin og förum þar yfir helstu þætti á hvern hátt við teljum eðlilegt að búið sé að innflytjendum á Íslandi. Þar komum við inn á þau atriði sem ég hef nefnt í mínu máli, bæði íslenskukennsluna og þau tilfelli þegar fólk þarf að sækja um félagslegan stuðning.

Varðandi íslenskukennsluna er það okkar mat að forsenda þess að innflytjendur geti tekið þátt í íslensku samfélagi sé færni í íslensku og við teljum alveg nauðsynlegt að það séu skilgreind ákveðin grunnmarkmið í íslenskunámi fyrir innflytjendurna þar sem verði sett ákvæði um lágmarkstímafjölda og tímaramma sem þeim standi til boða endurgjaldslaust. Við teljum að allir innflytjendur eigi rétt á ókeypis íslenskukennslu í samræmi við þau grunnmarkmið sem sett verða og að tryggja þurfi sérstaklega aðgengi að íslenskunámi þeim sem hvorki eru á vinnumarkaði né í skóla, því að það er auðvitað eðlilegt að fólk finni tilboðin ef um skólafólk er að ræða og jafnvel útivinnandi fólk, því að fyrirtæki eru í auknum mæli að bjóða upp á íslenskunám í vinnutíma, sem er auðvitað af hinu góða og til fyrirmyndar mjög víða. Það verður þó að efla og auka þau tilboð sem fólki standa til boða í vinnutímanum, við þurfum að viðurkenna að það sé eðlilegt að fólk fái svigrúm og tækifæri til að stunda það nám í vinnutíma en ekki utan hans því að með því að gera kröfu um að fólk sé í ströngu námi utan vinnutíma erum við að taka það frá fjölskyldu og hinum samfélagslegu skyldum. Við þurfum að átta okkur á að þarna þarf að vera ákveðið svigrúm og ég veit að atvinnurekendur eru í auknum mæli að opna augu sín fyrir þessu og gera þarna bragarbót.

Í grunnstefnumiðum okkar teljum við að þetta þurfi að vera rýmilegt, eins og ég sagði áðan, að veita þurfi ákveðið svigrúm í þessum efnum og að íslenskukunnáttan eigi ekki að vera ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir ríkisborgararétti heldur að við horfum á hvert einstakt tilvik og metum það. Það er einnig nauðsynlegt að setja viðmið um námsefni og kennsluaðferðir, sérstaklega um það sem hentar fullorðnum í þessu tilliti og viðurkenna að ekki á það sama við um börn og fullorðna.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé verið að gera ákveðnar leiðréttingar og bætur á lögunum um íslenskan ríkisborgararétt.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill biðja um hljóð í salnum, að það séu ekki fundir vítt og breitt um salinn. (Gripið fram í: Við erum að þjálfa þol ræðumannsins.) Það þarf ekki að þjálfa þol ræðumannsins, hv. þingmaður. Það á að gefa ræðumanni hljóð. )

Takk fyrir, virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu og hef svo sem fullt þol og gæti þess vegna talað undir skvaldri í þær 12–13 mínútur sem ég á eftir af eðlilegum ræðutíma miðað við þann tíma sem gefinn er í ræður um lagafrumvörp, en ég þykist hafa komið meginsjónarmiðum okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að í þessu máli og segi þar með máli mínu lokið.