133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:39]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi gera athugasemd við og það er íslenskukennslan, ekki það að ég hafi á móti henni, síður en svo. Mér finnst mjög mikilvægt að kenna útlendingum íslensku en það þarf líka að kenna þeim um menningu og siði íslenskrar þjóðar. Þannig er að hjá ýmsum þjóðum og í ýmsum ríkjum er mismunandi menning og mismunandi siðir og ég tel mjög brýnt að fólk sem kemur hingað til lands, jafnvel frá mjög ólíkum menningarsvæðum með mjög ólíka siði, læri sem best og mest um íslenska siði og íslenska menningu þannig að það nái að fóta sig sem best hér á landi.

Auk þess legg ég til að sú íslenskukennsla sem hér er verið að byggja upp verði byggð upp hratt og vel á netinu og verði sem ódýrust, líka fyrir þá útlendinga sem ekki sækja um ríkisborgararétt heldur koma hingað til að starfa. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það fólk læri líka íslensku þannig að það geti bjargað sér og læri enn fremur íslenska siði, íslenska menningu og á íslenskt stjórnkerfi.