133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[18:04]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg með ólíkindum að landsbyggðarþingmaður skuli koma og tala niður þingmál þegar verið er að gera tillögu um eitthvað á landsbyggðinni. Ég ætla bara að minna hv. þingmann á að menn vissu kannski ekki hvað Galdrasafnið Hólmavík ætti að kosta þegar það var sett á stofn og í þessu tilviki er það þannig að bæjarstjórnin mun koma að þessu og bæjarfélagið alveg eins og er annars staðar á landinu þar sem hefur verið komið upp alls konar starfsemi, það má nefna Draugasetrið og eitt og annað til að efla ferðamennsku. Þegar hv. þingmaður talar um að þetta sé sýndartillaga þá er það af og frá, þetta er alvörutillaga. Ég skil í raun og veru ekki samhengið á milli þess hjá þingmanninum, að bera þetta saman við kvótakerfið.

Kvótastaðan í Vestmannaeyjum er mjög góð og þegar hann talar um að það hafi ekkert verið gert fyrir Vestmannaeyinga í samgöngumálum þá er það alrangt því núna er verið að leggja meiri pening í rannsóknir á jarðgöngum til Vestmannaeyja. Það er nánast tilbúin hönnun á Bakkafjöru og það er útboð á fluginu núna. Það er búið að laga aðstöðuna á Bakkaflugvelli fyrir flugið til Vestmannaeyja, það eru tvær ferðir á dag með Herjólfi sem var ekki fyrir nokkrum missirum, það er því ýmislegt verið að gera. Tillögur um trjáræktarsetur eru settar fram af fullri alvöru þótt það sé ekki nákvæmlega vitað hvað það kostar. Þetta mun byrja hægt og rólega og vinda síðan upp á sig. Þetta er eins og með margt annað, það er ekki hægt að útlista það nákvæmlega. Menn munu svo sækja um á fjárlög til þess að fá stuðning í þetta verkefni og það er bara nákvæmlega eins og önnur verkefni víða á landsbyggðinni.