133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[18:07]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla bara að vona að kjósendur hv. þingmanns hafi hlustað á hann. Nú leggur hann til að öll söfn á landinu séu lögð niður því það sé ekki í lagi að vera með söfn. Hvað haldið þið að það séu mörg setur og söfn í kjördæmi hv. þingmanns sem hafa fengið stuðning frá Alþingi þar sem einmitt er verið að efla störf í hinum dreifðu byggðum þar sem orðið hefur fólksfækkun og minni atvinna? Ég vil bara nefna það þegar talað er illa um byggðasöfnin, að t.d. á Byggðasafnið í Skógum sem er á Suðurlandi og ég vona að hv. þingmaður komi þangað einhvern tíma, það er byggða- og samgöngusafn, þangað koma milli 30 og 40 þúsund gestir á ári. Þetta safn veitir 12–15 manns vinnu allt árið um kring að jafnaði. Ég held að kjósendur hv. þingmanns ættu að hlusta á hann þegar hann talar um að það þýði ekki að vera að koma með setur um þetta eða hitt. Vill hann þá ekki losna við Sauðfjársetrið, Galdrasafnið, söfnin í Reykholti og í Búðardal, og önnur söfn og setur sem við höfum verið að styðja hér á Alþingi? Það voru allir þingmenn sem stóðu að þessari tillögu og það vildi bara þannig til að Magnús Þór Hafsteinsson var ekki inni á fundinum þegar þetta var tekið út en hann hefði örugglega verið samþykkur þessu máli.