133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[18:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta voru nokkuð kostuleg orðaskipti hv. formanns landbúnaðarnefndar og hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar og athyglisverð umræða um atvinnu í sjávarbyggðum. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um trjáræktarsetur sjávarbyggða og auðvitað tengist það að hluta til atvinnu í sjávarbyggðum. Það vekur athygli þegar maður skoðar flutningsmenn tillögunnar að þar eru ásamt og með hv. flutningsmanni, Guðjóni Hjörleifssyni, hv. formaður landbúnaðarnefndar, Drífa Hjartardóttir, þingmaður sama kjördæmis, hv. þm. Kjartan Ólafsson úr sama kjördæmi og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson einnig úr sama kjördæmi. Svo getur að líta Jón nokkurn Bjarnason, hv. þingmann í Norðurlandskjördæmi vestra, sem stendur að baki Sunnlendingum í þessari tillögu — (Gripið fram í: Norðvesturkjördæmi.) Norðvesturkjördæmi. Það skyldi nú ekki vera að við Vinstri græn hefðum ákveðnar taugar til hugmynda af því tagi sem þingsályktunartillagan fjallar um.

Skemmst er frá því að segja að sjávarbyggðirnar eiga í vök að verjast og ég get verið sammála mörgu af því sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði. Það verður að horfa á hlutina heildstætt og skoða grundvallaratvinnuvegina og flutningsmenn þessarar tillögu vita vel að trjáræktarsetur í Vestmannaeyjum kemur ekki til með að skipta sköpum fyrir atvinnustig í byggðinni. En hins vegar væri það verulega þarft verkefni að reyna að skjóta styrkari stoðum undir þær stofnanir og þau setur sem nú þegar starfa á landsbyggðinni og þá er ég að tala um háskólasetrin sem verið er að koma niður vítt og breitt og ég er að tala um náttúrustofur landshlutanna. Hvort tveggja hefur átt athygli okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og það vill svo til að í Vestmannaeyjum eru bæði háskólasetur og náttúrustofa.

Eitt af því sem við höfum gagnrýnt stjórnvöld fyrir varðandi náttúrustofurnar er að þarna eru örlitlir vinnustaðir sem eru eðli máls samkvæmt afar veikir nema til komi stuðningur frá fleiri aðilum. Það hefur verið þannig í Vestmannaeyjum að menn hafa komið sér saman um húsnæði og háskólasetrið og náttúrustofan eru í mjög nánum tengslum. Verkefni af því tagi sem þingsályktunartillagan fjallar um kemur svo til viðbótar og ég tel það vera af hinu góða.

Hins vegar get ég tekið undir umsögn Veðurstofunnar sem bendir á að það sé kannski ekki alveg sjálfgefið að sett sé á fót sérstök stofnun utan um þetta verkefni. Veðurstofan bendir á að Náttúrustofa Suðurlands gæti sem slík hæglega sinnt verkefni af þessu tagi og þá í nánu samstarfi við Skógrækt ríkisins og/eða skógræktarfélög á Suðurlandi og segir að vilji sé til að sinna þessum rannsóknum í Vestmannaeyjum. Þá telur Veðurstofan heppilegra að auka umsvif náttúrustofanna í umhverfisvöktun og umhverfisrannsóknum frekar en að setja nýja stofnun á laggirnar þar. Veðurstofan hefur m.a. viðrað þá hugmynd að margs konar umhverfisvöktun sem nú fer fram á Stórhöfða á hennar vegum verði unnin í samstarfi við Náttúrustofu Suðurlands þegar Siglingastofnun hættir mönnun vitans á Stórhöfða seint á þessu ári. Engu að síður styður sú stofnun verkefnið sem slíkt. Þegar ég les þessa umsögn finnst mér hún afar skynsamleg en ég velti því fyrir mér hvort sú leið sem flutningsmenn leggja til sé hin rétta og hvort ofan á verður að gera þetta með þeim hætti sem flutningsmenn tillögunnar leggja til eða á þann hátt sem Veðurstofan orðar það að í sjálfu sér megi skoða báða kostina.

Rannsóknarstofan á Mógilsá, sem gert er ráð fyrir að haldi utan um verkefnið, getur það vissulega líka en ég er ekki frá því að því væri enn betur fyrir komið hjá Náttúrustofunni því að náttúrustofurnar þurfa verulega á því að halda að til þeirra sé litið þegar ný verkefni ber á góma.

Annað atriði í umsögn Veðurstofunnar er afar athyglisvert og mig langar að gera það að umtalsefni í ræðu minni og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fylgist auðvitað grannt með. (ÖS: ... yfirmaður Veðurstofunnar.) Einmitt, og hefur stutt hana með ráðum og dáð í ræðu og riti æ síðan. En Veðurstofan vekur athygli þingheims á því að hér sé fyrst og fremst um að ræða verkefni á sviði umhverfismála og telur því eðlilegra að málið heyri undir ráðuneyti umhverfismála frekar en landbúnaðarráðuneytið. Hér er hreyft athyglisverðu máli og ég tek undir með Veðurstofunni að það sé erfitt að sjá að markmiðið með rannsóknarverkefninu sé að fara að stunda ræktun nytjaskóga í umhverfi þar sem særok er tíðast og vindhraðinn mestur en nytjaskógar heyra eins og við öll vitum undir landbúnaðarráðuneytið og er eðlilegasti hlutur í heimi. Landbúnaðarráðuneytið er eðli málsins samkvæmt atvinnuvegaráðuneyti. Ég sé ekki á tillögu nefndarmanna að verið sé að hugleiða að fara út í nytjaskógrækt heldur rannsóknarverkefni sem er af umhverfislegum toga. En þarna rekum við okkur á að skörun verkefna milli þessara ráðuneyta tveggja, landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis, er eilífðarmál sem er eðlilegt að við tölum um á hinu háa Alþingi.

Mín skoðun er sú, og ég hef vikið að því í bæði greinaskrifum og úr þessum ræðustóli, að tímabært sé orðið að styrkja verkefnisstöðu umhverfisráðuneytisins. Að mínu mati hefur umhverfisráðuneytið að mörgu leyti verið hornreka og stofnanir þess. Það hefur að mörgu leyti átt erfitt uppdráttar þau ár sem það hefur starfað og mér finnst orðið tímabært að við færum rannsóknarverkefni undan atvinnuvegaráðuneytunum eins og t.d. landbúnaðarráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu undir umhverfisráðuneytið þannig að umhverfisráðuneytið hafi með rannsóknir að gera hvort sem það eru rannsóknir á landi, í hafi, á ströndum eða hvar sem það er í lífríkinu. Þessi tillaga gefur okkur tilvalið tækifæri til að ræða um þessa verkaskiptingu og velta því upp í alvöru hvort þarna sé ekki kjörið tækifæri til að efla verkefnastöðu umhverfisráðuneytisins og svo kann í framhaldi af því að fara svo að atvinnuvegaráðuneytin sem mundu þá missa rannsóknarstofur til umhverfisráðuneytisins mundu sameinast og hvort það væri þá ekki hin ákjósanlegasta leið til að fækka ráðuneytum og draga úr umsvifum Stjórnarráðsins. Þessi sakleysislega tillaga hefur í sér fólgna ákveðna kjarna sem gætu spírað og farið í skemmtilegar áttir. Mér finnst Veðurstofa Íslands hafa talsvert til síns máls í umsögn sinni og finnst skipta máli að hennar sé sérstaklega getið hér.

Aðrar umsagnir eru jákvæðar eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir gat um í andsvari við mig áðan. Það má nefna Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá og sömuleiðis er Skógrækt ríkisins. Skógrækt ríkisins segir að með þessu fyrirkomulagi sé verið að fela Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá að reka þetta trjáræktarsetur í Vestmannaeyjum og það muni gerast með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum. Í umsögninni kemur fram ákveðin ósk um að peningar fylgi þessu verkefni og auðvitað er til lítils að setja svona á laggirnar nema því fylgi fjármunir.

Og þá vil ég segja nokkur orð um fjárveitingar til verkefna af þessu tagi. Nú vitum við það sem höfum tekið þátt í umræðu um fjárlög árum saman að hugmyndir af þessu tagi, viðkvæmar hugmyndir sem eiga sér rætur í fámennum samfélögum á landsbyggðinni, koma til umfjöllunar hjá fjárlaganefnd, fá ákveðið brautargengi. Oft eru það landsbyggðarþingmennirnir sjálfir sem veita stuðning í gegnum fjárlaganefnd en það vill brenna við að fjárveitingar til þessara verkefna séu handahófskenndar og ekki nægilega markvissar. Ég brýni stjórnvöld, sem kannski verða ekki hin sömu eftir kosningar í vor, og vonandi ekki, og hvet þau til að gera áætlanir um markvissari uppbyggingu að þessu leyti því verkefni af þessu tagi þurfa að hafa svigrúm til að vera til.

Við þurfum að átta okkur á því og viðurkenna hvað við erum mikilvæg fyrir atvinnustöðu, menntunarstöðu og búsetuskilyrði í smærri byggðum en það má ekki vera á þennan handahófskennda hátt sem við höfum verið að styðja þessi verkefni hingað til. Það hefur líka viljað brenna við að settir eru peningar úr ríkissjóði í verkefni sem jafnvel eiga sér ekki lífsvon og fá ekki þann stuðning sem nauðsynlegur er í samfélögunum, jafnvel eru dæmi þess að verið sé að gera verkefnum af þessu tagi bjarnargreiða með fjárveitingum á fjárlögum. Fjárveitingarnar eru þá jafnvel ónógar og standa ekki undir því sem verkefnið útheimtir og verkefnið verður því alltaf á brauðfótum. Allt of mörg dæmi eru um að verkefni af þessu tagi sem hafa verið sett á laggirnar hafa ekki náð að skjóta rótum og hafa ekki náð að verða sú lyftistöng sem þau hafa kannski haft alla möguleika á ef unnið hefði verið á markvissari hátt.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mikið lengra mál um þetta en vil þó í lokin segja að þar sem um þingmannatillögu er að ræða, sem er fremur framarlega á dagskrá þessa fundar, vil ég vekja athygli þingheims á því að á síðustu dögum þingsins er ákveðinn fengur að því fyrir almennan þingmann að koma tillögu í gegnum þingið. Það er að gerast hér að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson er að fá tillögu sína til síðari umr. og að öllum líkindum samþykkta við atkvæðagreiðslu á morgun og ég amast ekki við því. Mér finnst það hið besta mál en vek um leið athygli á því að við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum legið í nefndum með tillögur okkar árum saman og ekki fengið settar á dagskrá með þeim forgangi sem hv. þm. Guðjón Hjörleifsson nýtur hér. Ég nefni til sögunnar tillögu eins og þá sem ég hef flutt hvað eftir annað með stuðningi úr öllum flokkum um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Af hverju næ ég ekki þeirri tillögu úr umhverfisnefnd? Eða tillögu sem við höfum líka flutt, Vinstri græn, og nýtur stuðnings þingmanna úr öllum flokkum, m.a. hv. þingmanns, fyrrum forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Ég beiti þrýstingi á hverju ári við að reyna að fá þá tillögu afgreidda úr umhverfisnefnd en hvorki gengur né rekur. Mér finnst tilefni til þess að vekja athygli á því að menn sitja ekki við sama borð á Alþingi Íslendinga og það er miður. Við ættum að geta á hverju vori afgreitt ákveðinn fjölda þingmannatillagna frá þinginu og þar ættu að skiptast á stjórnarþingmenn og þingmenn stjórnarandstöðu. Við eigum ekki að vera feimin við að opna þau mál og ræða hreint út hversu margar tillögur þingmanna eiga að fara í gegn og hverjar þær séu. Við eigum að koma okkur saman um þannig hluti.

Ég nefni líka, vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal var nefndur á nafn, að hann á eina merka tillögu sem við Vinstri græn höfum verið að reyna að ná úr nefnd og það er tillaga af svipuðu tagi og þessi um stuðning við ferðaþjónustu á Melrakkasléttu sem mér finnst sjálfsagt að afgreiða nú. Ég vona að hv. þm. Halldór Blöndal nái þeirri tillögu í gegn og ég vona líka að við Vinstri græn náum tillögunni um stækkun friðlands í Þjórsárverum úr umhverfisnefnd og ekki síður tillögunni um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum.

Að svo mæltu vil ég lýsa því yfir að ég kem til með að styðja þessa tillögu og óska trjáræktarsetri í Vestmannaeyjum alls góðs, fagna því að það skuli vera opnaður möguleiki á samvinnu við Hjaltland, Orkneyjar og Shetlandseyjar sem eru ævintýralönd eins og Ísland og Færeyjar. Ég held að hér sé hið skemmtilegasta verkefni í uppsiglingu og við eigum eftir að sjá fleiri Gaujulunda í Vestmannaeyjum verða afrakstur af þessu verkefni.