133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

trjáræktarsetur sjávarbyggða.

51. mál
[18:45]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir miklum stuðningi við þetta mál, trjáræktarsetur sjávarbyggða, sem ljóst er að verður afgreitt frá Alþingi sem tillaga til landbúnaðarráðherra um að stofna trjáræktarsetur sjávarbyggða í Vestmannaeyjum til að rannsaka áhrif veðurfars og særoks á trjárækt. Þetta er hið þarfasta og besta mál. Farið hefur verið efnislega yfir það í umræðum í dag og engin ástæða til að endurtaka það en mikilvægt er að byggja upp traustan þekkingargrunn á þessu sviði. Hér segir að 82% Íslendinga búi þar sem særok hefur haft mikil áhrif á gróður og veðurfar eins og gefur að skilja við strendur landsins. Það er því jákvætt mál að byggja upp spálíkan sem segir til um áhrif særoks á gróður og trjárækt og finna leiðir til að byggja upp og kynbæta tegundir sem dafna við slíkar aðstæður þar sem harðgerður trjágróður einn getur komið til greina, saltþolinn víðir eins og hér er nefndur sem dæmi um tegund sem hægt er að prófa.

Ég vildi rétt nefna það líka, sem einnig er ánægjuefni, að hér er tillaga til þingsályktunar sem kallast þingmannamál frá hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni. Ég óska honum til hamingju með að ná því máli fram. Það er ánægjulegt að þingmannamál sé afgreitt úr nefnd, og birtir nú aftur yfir eftir skamma stund í myrkrinu í þingsal, því að það varpar skugga á störf Alþingis og er ámælisvert að á hverjum einasta vetri er fluttur mikill fjöldi þingmannamála, nokkur frá stjórnarliðum en mikill fjöldi frá stjórnarandstæðingum, og það vita allir að málin sofna nánast öll í nefnd, nema hérna eitt mál sem verður afgreitt úr nefndinni við síðari umr. og svo væntanlega frá Alþingi, í staðinn fyrir að ná einhverri sátt um að stytta ræðutíma og afgreiða málin almennt úr nefnd, þau sem hafa fengið þá vinnu í nefndunum sem viðunandi er og Alþingi greiði svo atkvæði um málin að lokum, felli mál og vísi áfram. Það er löstur á starfsemi Alþingis og partur af þeirri afleitu stöðu að einungis 29% þjóðarinnar lýsa yfir trausti á störfum Alþingis, það er þetta vinnulag meðal annars. Það er mjög æðisgenginn ræðutími í einstökum málum en þingmannamál og málefni stjórnarandstöðunnar ná aldrei fram að ganga hversu góð sem þau eru og hversu mikil samstaða sem er um þau þvert á alla flokka.

Að miklum fjölda mála standa flutningsmenn úr öllum flokkum, enda eru örugglega 70–80% allra mála sem koma inn á Alþingi þverpólitísk á gamla kvarðann hægri og vinstri. Það efast ég ekkert um. Þetta mál er gott dæmi um það, trjáræktarsetur sjávarbyggða. Þetta er þverpólitískt mál sem gerir ekkert annað en bæta búsetuskilyrði á Íslandi, efla byggðir landsins og er mjög gott mál fyrir Vestmannaeyjar o.s.frv. Um flest mál má segja sömu sögu. Þetta eru þverpólitísk umbóta- og þjóðþrifamál sem hægt væri að ná samstöðu um að afgreiða með skynsamlegum ræðutíma og knappri umræðu í staðinn fyrir að hafa þá lensku að drepa öll hin stórgóðu mál í nefndum.

Víð erum líklega á næstsíðasta degi þessa kjörtímabils alls. Fyrir tveimur árum munaði engu að afgreitt yrði úr allsherjarnefnd þekkt þingmál hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar um afnám fyrningarfrests vegna kynferðisbrota. Stórgott mál sem nokkuð breið og mikil samstaða er um og þúsundir hafa skrifað undir áskorun til Alþingis um að klára. Það munaði engu að málið yrði afgreitt úr nefnd og sett á dagskrá Alþingis við þinglok fyrir tveimur árum en því var hafnað af þeim ástæðum einum að ekki væri hefð fyrir því að afgreiða mál stjórnarandstæðinga úr nefndum hversu góð sem þau væru og hversu mikið þjóðþrifamál allir teldu þau.

Það er leiðinlegt að þetta kjörtímabil skuli taka enda án þess að afgreidd hafi verið ný lög um þingsköp sem lengja starfstíma Alþingis, frá 15. september til 15. júní í staðinn fyrir gömlu viðmiðunina um sauðburð í maí og göngur og réttir í október, og að ekki skuli hafa náðst samstaða um nýtt form á ræðutíma og afgreiðslu mála og því fylgi að þingmannamál stjórnar og stjórnarandstöðu, sama hver situr í meiri hluta í þinginu, séu afgreidd úr nefndum inn á Alþingi þar sem þingmenn greiða atkvæði um málin. Þannig fengi fulltrúalýðræðið notið sín. Mál þeirra fulltrúa sem fólkið kýs á löggjafarsamkunduna færu til 2. og 3. umr. og Alþingi afgreiddi málin í staðinn fyrir að svæfa þau í nefnd af því einu að hefð er fyrir því á Íslandi. Norræna módelið er að mörgu leyti til mikillar fyrirmyndar hvað þetta varðar. Þar eru góð mál einfaldlega afgreidd í gegnum þjóðþingið, burt séð frá því hver flytur þau eða frá hvaða flokki þau eru komin. Það er Alþingi til vansæmdar með hvaða móti þessum málum er fyrir komið og ástæða til að nota það tilefni sem nú gefst til að ræða það, þegar við fögnum því að tillaga til þingsályktunar um trjáræktarsetur sjávarbyggða, flutt af fimm þingmönnum þriggja flokka, er afgreidd úr nefnd til síðari umr. og svo væntanlega þannig að Alþingi hafi sent frá sér ályktunina til landbúnaðarráðherra um að ganga í það verkefni að stofna setrið. Ástæða er til að nota þetta tækifæri til að brýna Alþingi og halda því til haga að það vinnulag sem hér hefur tíðkast er Alþingi til vansæmdar og er ástæða til að gerbreyta því.

Það er vonandi að ný ríkisstjórn og nýr meiri hluti á Alþingi, sá þingbundni meiri hluti sem veitir ríkisstjórninni meiri hluta á næsta ári, hver sem hann verður, láti það verða eitt af sínum fyrstu málum að breyta þingsköpum og vinnulagi Alþingis þannig að hægt sé að endurreisa og endurheimta traust þjóðarinnar. Það traust hefur hrunið. Við vitum öll ástæðurnar fyrir því. Þær eru margvíslegar. Það er ekki einungis það að framkvæmdarvaldið hafi á síðustu árum farið offari gagnvart löggjafarvaldinu og löggjafinn virki á köflum áhrifalítil afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Vinnulagið á þinginu er líka ámælisvert og ástæða til að skora á Alþingi að endurskoða það. Það er engum til sóma hvernig mál hafa þróast og ástæða til að taka það til gagngerrar endurskoðunar í því eina þingmannamáli á þessum vetri, og eina af kannski tveimur til þremur á fjögurra ára kjörtímabili, sem er afgreitt úr nefnd til lokaafgreiðslu. Ég veit ekki hvort þau mál skipta hundruðum. Þingmannamálin skipta alla vega tugum, ná því líklega að vera 100, kannski 200. Það er erfitt að segja, kannski vel yfir það og eitt, tvö, þrjú mál hljóta þá náð fyrir augum meiri hlutans að fá afgreiðslu úr þinginu. Það er ámælisvert um leið og það er fagnaðarefni að þessi tillaga hafi náð fram að ganga, hafi hlotið náð fyrir augum meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar. Svo mætti vera um mörg önnur mál. Þá mundu störf Alþingis ganga miklu betur og verða öllum til meiri sóma en er við lok þessa kjörtímabils.