133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

466. mál
[22:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir að koma hér og skýra atriði eftir því sem föng eru. Athugasemdir mínar snúa ekkert að því hvort það séu góðir aðilar sem fá jarðirnar eða hvað. Þær snúast bara um lagalega réttarstöðu jarðanna eftir samninginn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé skýrt. Ég spurði m.a. hvort það væri ekki réttur skilningur hjá mér að samningurinn breytti engu um svokallaðar kristfjárjarðir, þær haldi áfram sinni stöðu sem kristfjárjarðir. Eins og hæstv. ráðherra minntist á eru sumar í ráðstöfun sveitarfélaga, í öðrum tilvikum er sérstök nefnd sem ráðstafar þeim. Það er ýmis háttur á en lögin breyta engu um stöðu þeirra og taka ekki tillit til þeirra.

Jarðirnar sem falla til ríkisins voru áður í ágreiningi á milli ríkis og þjóðkirkju en þær jarðir sem falla til þjóðkirkjunnar eru taldar upp og er bara gott mál. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort ekki hefði verið eðlilegt líka að það hefði verið listi yfir þær eignir sem fallið hafa til ríkisins úr þeim potti sem var ágreiningur um. Það hefði verið eðlilegt að greint hefði verið frá því líka.

Eins og við ræddum um í jarðalögunum á sínum tíma var talið eðlilegt að þegar búið væri að ganga frá samningnum milli ríkis og kirkju kæmi ákvæði í jarðalögin sem lyti að sérskilyrðum sem jarðirnar sem væru í eigu þjóðkirkjunnar lytu. Það var a.m.k. í umræðunni þegar gengið var frá jarðalögunum á sínum tíma.