133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Það líður að þinglokum og ekki leynir sér að alþingiskosningar eru fram undan. Ég tel mikilvægt að kosningabaráttan fari prúðmannlega fram og menn gleymi því ekki í hita leiksins að eftir kosningar þarf að vera grundvöllur fyrir traustri, framfarasinnaðri meirihlutastjórn sem getur fylgt eftir þeim góða árangri sem náðst hefur á undanfönum árum.

Það framfaraskeið sem þjóðin hefur búið við undanfarin tólf ár er hægt að framlengja um langt árabil ef rétt er staðið að verki. En það er líka hægt að binda enda á það þannig að við taki stöðnun og verri lífskjör. Ég er ekki í vafa um hvað þjóðin vill í því efni. Það er hins vegar brýnt að gera sér grein fyrir því að það er ekki sjálfgefið að lífskjörin haldi áfram að batna. Framfarir koma ekki af sjálfu sér.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð boðar stopp á flestum sviðum. Stopp þýðir afturför.

Samfylkingin boðar frestun á flestum sviðum. Það jafngildir frestun á framförum.

Ótti við breytingar skilar okkur engu. Það verða ekki áframhaldandi framfarir í landinu ef stjórnmálamenn draga allan kjark úr fólki, segja að allt sé að fara á versta veg og hvetja athafnamenn til að halda að sér höndum. Verðmætin verða til í atvinnulífinu og það er lífsspursmál að það fái að dafna og geti þannig bætt hag landsmanna. Þeir sem beint og óbeint leggja stein í götu framþróunar í atvinnulífinu, eins og vinstri flokkar á Íslandi hafa alla tíð gert, eru að vinna gegn hagsmunum almennings. Í þessum efnum er hvorki gott að vera alltaf á móti, eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, né tala tungum tveim eins og hin sundurlynda Samfylking.

Það er ekki góð tilhugsun að þessir tveir flokkar komist saman einir í ríkisstjórn en sá möguleiki virðist fyrir hendi. (Gripið fram í.)

Góðir tilheyrendur. Traust og öflugt atvinnulíf er eitt og sér ekki nægilegt til að skapa hér það fyrirmyndarþjóðfélag sem við viljum keppa að. Það er líka mikilvægt að úr þeim verðmætum sem skapast í þjóðfélaginu verði spilað þannig að þeir sem verst eru settir fái sinn eðlilega skerf af þjóðarkökunni. Að því hefur ríkisstjórnin unnið með myndarlegum hætti undanfarin missiri, m.a. í samstarfi við eldri borgara og öryrkja. Um síðustu áramót komu mikilvægar umbætur í þessum efnum til framkvæmda.

Grunnur sjálfstæðisstefnunnar byggir á frjálsræði til athafna og atvinnuuppbyggingar sem er forsenda öflugrar verðmætasköpunar og þess að hægt sé að gera vel við þá sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti í lífinu. Hvort tveggja eru hornsteinar í stefnu okkar. Við höfum gert verulegt átak í að bæta kjör hinna verst settu og munum halda því áfram. Ég fagna sérstaklega tillögum um úrbætur í málefnum öryrkja sem nýlega var skilað til mín. Þær voru unnar í góðu samstarfi og marka tímamót.

Gáum líka að því, góðir tilheyrendur, hvað sú stefna ríkisstjórnarinnar þýðir að efla hagvöxt og hagþróun. Hvað er hagvöxtur? Hagvöxtur er fleiri og betri skólar, meiri vísindastarfsemi og rannsóknir. Hagvöxtur er öflugri heilbrigðisþjónusta og bættur hagur aldraðra. Hagvöxtur er allt þetta og miklu meira. Hann leiðir til þess að við getum gert betur í þessum grundvallarmálaflokkum og mörgum fleirum. Grundvöllur velferðarinnar er verðmætasköpunin. Sem betur fer hefur það verið gæfa okkar Íslendinga lengst af að skilja samhengið þarna á milli.

Frú forseti. Undanfarna daga hefur verið deilt hér í þinginu um stjórnarskrármál. Við formaður Framsóknarflokksins höfum lagt fram frumvarp um að í stjórnarskrá komi ákvæði um þjóðareign á auðlindum eins og fjölmargir hafa kallað eftir. Þegar óvissa ríkti um það hvort ríkisstjórnarflokkarnir næðu saman um að leggja fram tillögu til breytinga á stjórnarskrá í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmála flokkanna þar að lútandi bauðst stjórnarandstaðan til þess að greiða fyrir málinu svo að þingheimur stæði sameinaður að stjórnarskrárbreytingunni. En þegar frumvarp í þessa veru var lagt fram, m.a. í trausti þess að um slíka breytingu ríkti góð sátt í þinginu, breyttist afstaða stjórnarandstöðunnar skyndilega. Finnur hún nú málinu flest til foráttu eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns.

Vissulega er óvenjulegt að breytingar séu gerðar á stjórnarskrá með þeim hætti sem hér er lagt til. Af hálfu stjórnarflokkanna hefur það verið forsenda fyrir því að festa ákvæðið um eign þjóðarinnar yfir auðlindum í stjórnarskrá að slíkt ákvæði mundi ekki breyta réttindum þeirra sem nú þegar eiga eða nýta auðlindir og ekki ógna þeim stöðugleika sem grundvallaratvinnugreinum okkar er nauðsynlegur. Það er æskilegt að um ákvæði stjórnarskrárinnar sem geymir grundvallarlög Íslands ríki sem mestur einhugur meðal kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Ég leyfi mér að vona að enn sé ráðrúm til að ná samstöðu hér á Alþingi um það frumvarp sem við formenn stjórnarflokkanna höfum lagt fram um þjóðareign á auðlindum Íslands en því miður gaf ræða hv. síðasta ræðumanns ekki góðar vonir í því efni.

Frú forseti. Fyrir ári síðan stóðum við Íslendingar andspænis mikilli óvissu í öryggis- og varnarmálum okkar þegar Bandaríkjastjórn tilkynnti að hún hygðist kveðja herlið sitt heim. Nú, ári síðar, er ljóst að okkur hefur tekist að vinna vel úr þeirri óvæntu stöðu sem upp kom. Nýtt samkomulag Íslendinga og Bandaríkjamanna frá því í október sl. byggir ofan á hinn gamla varnarsamning ríkjanna og viðræður við aðrar grannþjóðir sýna að við þær er hægt að ná auknu samstarfi á grundvelli gagnkvæmra hagsmuna. Við blasir svo einnig að á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli hafa skapast gríðarleg tækifæri til nýrrar atvinnusköpunar, t.d. með öflugu alþjóðlegu skólastarfi og er stutt í að sú mynd skýrist.

Ríkisstjórnin brást við breyttum aðstæðum í varnarmálum af yfirvegun og skynsemi og hefur tryggt varnarlega stöðu Íslands eins vel og hægt er í breyttum heimi. Mér er kunnugt um að það hefur vakið eftirtekt og ánægju víða meðal vina og bandalagsþjóða. Jafnframt þessu hafa innlendar öryggisstofnanir líkt og Landhelgisgæslan og lögreglan verði stórefldar.

Ný og stórmerkileg skýrsla Evrópunefndar staðfestir að Íslendingar hafa einnig verið á réttri leið í Evrópumálum og ekkert knýr á um breytingar á núverandi skipan sem byggir á EES-samningnum.

Virðulegi forseti. Umræða um umhverfismál hefur verið áberandi hér á landi á síðustu missirum. Ástæða er til að fagna aukinni áherslu á þessi mál en því miður er umræðan að sumu leyti á villigötum. Það er orðið tímabært að við Íslendingar leggjum áherslu á þau tækifæri sem við eigum á sviði umhverfismála og sinnum þeim brýnu úrlausnarefnum sem við okkur blasa hvarvetna.

Íslenskt hugvit og sérþekking íslenskra orkufyrirtækja er nú orðin eftirsóknarverð um heim allan. Íslendingar standa öðrum þjóðum langtum framar í beislun endurnýjanlegra orkugjafa. Yfir 70% af allri orkunotkun Íslendinga er frá endurnýjanlegum orkulindum en í OECD-ríkjunum er þetta hlutfall langt innan við 10 af hundraði.

Þjóðir heims líta í æ ríkari mæli til endurnýjanlegra orkugjafa í baráttu sinni gegn mengun andrúmsloftsins. Þjóðarauður okkar í þessum efnum er því ekki einungis falinn í fallvötnunum og þeirri orku sem býr í iðrum jarðar, heldur einnig og ekki síður í þeirri sérþekkingu sem við höfum fram að færa og heimsbyggðin kallar eftir. Við Íslendingar höfum tækifæri til að ná afgerandi forustu á aðrar þjóðir á sviði orkumála. Útrás íslenskra orkufyrirtækja sem byggja á íslensku hugviti og sérþekkingu er þegar hafin og þar liggja gríðarleg tækifæri. Á dögunum var opnuð íslensk hitaveita í Kína sem nýtir jarðvarma til hitunar og gæti orðið stærsta hitaveita í heimi.

Umhverfismál eru miklu stærri málaflokkur en svo að þau eigi eingöngu að snúast um virkjanir og álver eins og ætla mætti af umræðunni á stundum. Hin glæsilega Kárahnjúkavirkjun er ekki eini mælikvarðinn á afstöðu til umhverfisverndar. Virkjanir og stóriðja eru mikilvægur hluti af þessum málaflokki en hvorki upphaf hans né endir.

Frú forseti. Íslenskt efnahagslíf stendur afar vel um þessar mundir. Lífskjör fólksins í landinu hafa batnað meira á undanförnum árum en nokkru sinni fyrr. Staða ríkissjóðs er gríðarlega sterk, umtalsverður tekjuafgangur er af rekstri hans og skuldir hans hverfandi. Þessi umskipti hafa ekki gerst af sjálfu sér heldur hefur hér verið að verki markviss pólitísk stefnumörkun sem unnin hefur verið í góðu samstarfi ríkisstjórnarflokkanna, pólitísk hugmyndafræði sem gengur út á að virkja kraft einstaklingsframtaksins þjóðinni allri til hagsbóta. Í þessum anda hefur m.a. á síðustu árum verið ráðist í umfangsmestu skattalækkanir Íslandssögunnar.

Frú forseti. Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, hitti á sínum tíma naglann á höfuðið þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Þeir menn sem vilja láta félagsheildina eða ríkisvaldið setja sem fyllstar reglur um starfsemi einstaklinganna, banna margt, leyfa fátt og skipulagsbinda allt, þeir gæta miður að hinu að um leið og einstaklingurinn er sviptur frelsinu þá er venjulega þar með kæfð löngun hans til að beita kröftunum, og frost kyrrstöðunnar færist yfir þjóðlífið.“

Ég minntist í upphafi á þá kosti sem í boði eru í komandi kosningum. Kjósendur verða að átta sig á því að kannanir benda til þess að það sé raunveruleg hætta á vinstri stjórn. Ríkisstjórnin leggur verk sín óhrædd í dóm kjósenda. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að takast á við ný verkefni með nýrri forustu og nýjum einstaklingum á framboðslistum um allt land en með sömu árangursríku stefnuna að leiðarljósi. Umbóta- og uppbyggingarstarfi núverandi ríkisstjórnar er hvergi nærri lokið, það væri dapurlegt að sjá því snúið upp í andhverfu sína eftir næstu kosningar. — Góðar stundir.