133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:16]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn.

Smávinir fagrir, foldarskart,

fifill í haga, rauð og blá

brekkusóley, við mættum margt

muna hvort öðru að segja frá.

Þannig kvað hið góða skáld og náttúrufræðingur Jónas Hallgrímsson hvers 200 ára ártíðar við minnumst nú. Það er enginn vafi á því í mínum huga að væri Jónas Hallgrímsson á dögum ætti íslensk náttúra og umhverfi allt í honum öflugan liðsmann. Maður sem gat ort á þann hátt um gróður jarðarinnar, sá fegurðina í hinu smáa sem og í hinu stóra og hrikalega, eins og hann gerði, maður sem gat ort innblásinn á sumarnótt um hamfarirnar þegar logi reiður lauk við að steypa upp ógnarskjöldinn bungubreiða sem vakir yfir Þingvöllum úr norðri, hvað gæti hann verið annað en umhverfisverndarsinni?

Jónas er ekki á meðal vor en andi hans er með okkur og ljóð hans lifa. Þau eiga að vera okkur sem þjóð hvatning til þess að bregðast ekki skyldu okkar, gæslumannshlutverkinu gagnvart því fagra landi og þeirri dýrmætu náttúru sem okkur hefur verið falin til umsjár.

Í vor eru mikilvæg tímamót, einhverjar afdrifaríkustu kosningar sem fram hafa farið í landinu um langt skeið verða 12. maí nk. Þar verða umhverfismálin m.a. uppgjörsmál. Þjóðin þarf að svara því hvort hún er sátt við þá stórvirkjana- og álvæðingarstefnu sem fylgt hefur verið undanfarin ár og stendur til að fylgja órofið á næstunni fái ríkisstjórnin styrk til þess. Eða viljum við láta staðar numið um sinn a.m.k., staldra við og endurmeta hlutina? Fyrir því berst Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Við viljum að ekki verði teknar frekari ákvarðanir um stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmdir næstu árin, þess í stað njóti íslensk náttúra griða og hagkerfi og efnahagslíf og vinnumarkaður fái tíma til að jafna sig. Það er ekki ávísun á stöðnun. Það er ávísun á heilbrigt efnahags- og atvinnulíf í jafnvægi og það er ávísun á ábyrga umhverfisverndarstefnu.

Í þessum málaflokki hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð algera sérstöðu. Við höfum staðið vaktina á hverju sem gengur og við þurfum því ekki að hlaupa út í búð og kaupa málningu þegar vindurinn hefur snúist og stóriðjustefnan er orðin óvinsæl. Nú er svo komið að meira að segja heiðblátt merki Sjálfstæðisflokksins, fálkinn, hefur verið fluttur til í dýraríkinu, er orðinn að kamelljóni og skiptir litum eftir þörfum.

Ekki eru síður aumlegir tilburðir framsóknarmanna til að skola af sér álrykið og skvetta yfir sig grænu. Á Alþingi og í blaðagreinum hamast nú framsóknarmenn, sjálfsagt samkvæmt fyrirmælum frá spunameisturunum, og segja að við vinstri græn séum nú meira og minna með allri stóriðju. Fyrir fjórum árum vorum við óalandi og óferjandi af því að við vorum á móti öllu. Í gær ósköpuðust nokkrir þingmenn Framsóknar hér í salnum yfir því sem við styddum. Það gleymdist að vísu að láta Guðna Ágústsson vita. Hann kom hérna í ræðustólinn og fór með gömlu plötuna um að við værum á móti öllu. (Gripið fram í: Þið eruð það.) Og nú spyr ég ykkur, framsóknarmenn góðir: Hvernig ætlið þið að hafa þetta? Hvort erum við með öllu eða á móti öllu? (Gripið fram í: Á móti öllu.) Viljið þið ekki fara að gera þetta upp við ykkur eða væri kannski gáfulegast að hætta þessu? Haldið þið að þjóðin kaupi þetta? Nei, auðvitað ekki. Stefna okkar liggur fyrir skýr og einörð og þjóðin veit fyrir hvað við stöndum hvað sem öllum framsóknarútúrsnúningum líður.

Það er ekki síður afdrifaríkt að í vor verði kosið um íslenska velferðarsamfélagið, kosið um það hvers konar samfélag menn vilja að þróist á Íslandi á komandi árum. Vilja menn norrænt velferðarsamfélag á Íslandi eða ekki? Ef svarið er já þá kjósa þeir ekki flokka sem hafa keyrt samfélagið á fullri ferð í aðra átt. Eitt af brýnustu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar er að ganga til viðræðna við samtök aldraðra og öryrkja og aðra þá hópa sem ekki hafa borið sanngjarnan hlut frá borði og bæta hag þeirra.

Annað forgangsmál hlýtur að vera að rjúfa kyrrstöðuna í jafnréttismálum. Þar teflir Vinstri hreyfingin – grænt framboð sínum róttæku kvenfrelsisáherslum. Við ætlum ekki að sætta okkur við þá kyrrstöðu, þá uppgjöf og það aðgerðaleysi sem einkennt hefur baráttuna gegn kynbundnum launamun og öðrum brotalömum í jafnréttismálum. Við viljum segja klámi, vændi og mansali stríð á hendur og unna okkur engrar hvíldar fyrr en konur njóta fulls frelsis og fullra mannréttinda.

Við þurfum líka að kjósa um utanríkismálin í vor. Þjóðin er ekki búin að gleyma hinum skammarlega stuðningi stjórnarflokkanna undir forustu þáverandi formanna, Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, við Íraksstríðið.

Við þurfum að kjósa um atvinnu- og byggðamál, hið fullkomna metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í þeim efnum sem Vestfirðingar hafa m.a. minnt á með kraftmiklum hætti að undanförnu. Landsbyggðin hefur mætt tómlæti og áhugaleysi. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er ríkisstjórn svikinna loforða um jöfnunaraðgerðir í byggðamálum eins og t.d. því að jafna flutningskostnað. Við þurfum að hlúa að fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu. Við þurfum að verja menninguna fyrir frekari einkavæðingu og endurheimta Ríkisútvarpið.

Það er deginum ljósara að ríkisstjórnin er þreytt og komin að fótum fram. Hún gerir núna hverja örvæntingarfullu tilraunina af annarri til að framlengja líf sitt og nýjasti leiksoppurinn í þeim efnum er sjálf stjórnarskrá lýðveldisins. Ekki er nú hátt risið á því, hæstv. forsætisráðherra, að reyna að skríða í skjól af stjórnarandstöðunni með þau vinnubrögð sem þú berð ábyrgð á.

Svo kemur gamli hræðsluáróðurinn. Það lét ekki á sér standa. Ríkisstjórn sem sjálf er ber að afglöpum í hagstjórn, sem sjálf er að glutra niður árangri þjóðarsáttarinnar, sem sjálf hefur misst upp verðbólguna, sem sjálf ber ábyrgð á Íslandsmeti í viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun, fer út í hræðsluáróðurinn: Það fer hér allt í voll ef einhverjir aðrir en við fáum að stjórna. Eða glundroðakenningin, ætli hún eigi ekki eftir að koma, um að stjórnarandstaðan muni aldrei geta unnið saman? Ríkisstjórn sem sjálf er á þriðja forsætisráðherranum og fjórða utanríkisráðherranum á þessu kjörtímabili kemur örugglega með glundroðakenninguna. (Gripið fram í.) Nei, góðir landsmenn, við skulum ekki óttast þá sem kasta steinum úr glerhúsi. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur ábyrgar tillögur okkar vinstri grænna í efnahagsmálum, fjármálum ríkis og sveitarfélaga og skattamálum og það er engu að kvíða í þeim efnum af okkar hálfu.

Eitt er mikilvægt og það er að það verða engar breytingar nema hér náist fram stjórnarskipti. Haldi ríkisstjórnin meiri hluta, þó að hann verði naumur, situr hún áfram, það er kristaltært. En það er stemning í samfélaginu fyrir að breyta, því að almenningur er búinn að fá meira en nóg af einkavæðingu. Hann er ekki búinn að gleyma Írak, við erum ekki búin að gleyma Ríkisútvarpinu, ekki búin að gleyma illdeilunum við aldraða og öryrkja. Landsbyggðin man svikin loforð um jöfnunaraðgerðir í byggðamálum og niðurskorna vegáætlun.

Góðir landsmenn. Mér segir svo hugur að nú verði hún til í vor, velferðarstjórnin, græna stjórnin. Vinstri hreyfingin – grænt framboð býður fram alla krafta sína, einbeitni sína og sigurvilja sinn til að svo verði. Við erum gæfusöm þjóð að eiga okkar stórkostlega land og alla þá möguleika sem í því eru fólgnir, auðlindum þess, fegurð þess og hreinleika, og við eigum okkur sjálf, stærstu auðlindina, mannauðinn. Ég segi við ykkur, góðir landsmenn: Nú skulum við kveðja veturinn og ganga saman út í vorið, grænt og hlýtt vor í íslenskum stjórnmálum og í íslensku þjóðlífi. — Ég þakka þeim sem hlýddu.