133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Góðir Íslendingar. Í kosningunum í vor stöndum við frammi fyrir mikilvægri ákvörðun, líklega mikilvægari en flestir gera sér grein fyrir. Þá verður ákveðið hvort við höldum áfram á braut efnahagslegra og samfélagslegra framfara eða skiptum alfarið um kúrs og eigum þá á hættu stöðnun, samdrátt og atvinnuleysi.

Síðastliðinn áratugur hefur verið mesta hagsældar- og framfaratímabil Íslandssögunnar. Íslenskt samfélag er ríkara og fjölbreyttara hvort sem litið er til menningarlegra mælikvarða eða peningalegra. Margt af því sem við teljum vera sjálfsagt í dag, valkostirnir og tækifærin, var það hins vegar ekki fyrir nokkrum árum og verður það heldur ekki lengur ef hér kemst til valda ríkisstjórn undir forustu vinstri flokka sem hafa ávallt skilað auðu eða verið á móti þegar framfaramál hafa komið hér til atkvæðagreiðslu á undanförnum árum. Þegar þetta er sagt er ekki verið að reyna að slá pólitískar keilur heldur eru þetta raunverulegar staðreyndir og það er af mörgu að taka.

Hér í salnum er stjórnarandstaða sem studdi ekki rammalöggjöf um háskóla, ein mikilvægustu lög sem samþykkt hafa verið á sviði skólamála í seinni tíð. Hér í salnum er stjórnarandstaða sem vildi ekki veita sjálfstæðum grunnskólum eins og Ísaksskóla, barnaskóla Hjallastefnunnar eða Landakotsskóla tækifæri. Hér í salnum er stjórnarandstaða sem vildi ekki sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskólans eða samkeppni og sjálfstæða skóla á háskólastigi. (Gripið fram í.) Hér er stjórnarandstaða sem var á móti skattalækkunum, á móti einkavæðingu ríkisfyrirtækja og vill helst reka stórfyrirtækin með vel menntuðu fólki úr landi. Vel að merkja hér er líka stjórnarandstaða með leiðtoga og mikinn höfðingja sem var á móti frjálsu útvarpi og treysti þjóðinni ekki til að kaupa bjór, en það er önnur saga. En fyrst og síðast er í salnum stjórnarandstaða sem er að meginstefnu til á móti efnahagslegum umbótum sem voru nauðsynlegar fyrir íslenskt samfélag, íslenskar fjölskyldur, íslenskar barnafjölskyldur sem aðrar. Og kostulegt nokk er hér hins vegar einnig stjórnarandstaða sem gefur út háa kosningatékka á grundvelli þessara umbóta, á grundvelli þess hagvaxtar sem skapaður hefur verið á síðustu árum. Það er kannski besti vitnisburður þess að vel hefur tekist til við stjórn efnahagsmála.

Þegar skyggnst er undir yfirborðið kemur nefnilega fljótlega í ljós að málflutningur stjórnarandstöðunnar byggist ekki á hugmyndum sem stuðla að uppbyggingu heldur því einu að vera á móti, vilja banna eða einfaldlega segja pass. Umræða um umhverfismál á t.d. ekki að vera skálkaskjól til að leggjast gegn allri framþróun atvinnulífsins og íslensks samfélags. Íslenskt samfélag hefur ávallt allt frá landnámi byggt á nýtingu náttúrugæða, hvort sem um er að ræða fiskimið, landgæði, jarðhita eða vatnsafl. Við verðum hins vegar einnig að muna að náttúran sem slík er gæði sem verður að umgangast af alúð, umhyggju og varfærni. Það hefur sannkölluð vitundarvakning orðið meðal þjóðarinnar um mikilvægi umhverfismála og það er fagnaðarefni, eitthvað sem þótti sjálfsagt eða eðlilegt fyrir nokkrum árum er það ekki lengur í dag. Viðmiðin breytast og gildismatið líka.

Sátt er að myndast um það í samfélaginu að rétt sé að hægja á ferðinni í virkjunarmálum og meta hvert skref sem tekið verður af enn frekari kostgæfni en áður. Um það mun hins vegar aldrei ríkja sátt að ekkert verði nokkurn tíma frekar gert, að við Íslendingar leggjum árar í bát og hættum að róa til framtíðar. Það er hins vegar ekkert sem knýr nú fram nýjar stóriðjuframkvæmdir þótt huga verði að eðlilegri framþróun þeirra fyrirtækja sem þegar eru starfandi eins og Alcan á Íslandi. Hér er ekki atvinnuleysi heldur þvert á móti, hér er ekki efnahagslegur samdráttur heldur þvert á móti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum fyrst og fremst að nýta jarðvarma, gufuafl og nýja tækni ef til frekari framkvæmda kemur. Hér á Íslandi hefur orðið til einstök þekking á því sviði og við stöndum þar framar flestum öðrum þjóðum. Sú þekking nýtist ekki einungis við jarðhitaverkefni heldur er þekkingin sem slík orðin að verðmæti og alþjóðlega eftirsóttri auðlind.

Það er tímanna tákn að nú er verið að undirbúa tvær menntastofnanir á háskólastigi sem hyggjast hasla sér völl með nýtingu íslenskrar vísinda- og orkuþekkingar að leiðarljósi. Önnur þeirra verður starfrækt á Akureyri í tengslum við Háskólann á Akureyri og hefur verið einstaklega spennandi að fylgjast með þróun og þeim mikla metnaði sem lagður hefur verið í verkefnið. Ég hef þegar tjáð fulltrúum Háskólans á Akureyri að ég sé reiðubúin til að nýta heimildir í lögum til að gera skólanum kleift að ráðast í byggingu Borga með því að vera hluthafi í félaginu Þekkingarvörður. Hin menntastofnunin verður staðsett á Suðurnesjum og er í samstarfi við háskólastofnanir og orkufyrirtæki en báðir skólarnir verða í nánu samstarfi og með beinni aðild fyrirtækja á þessu sviði. Hvar stæðu þessi verkefni ef hér hefði verið við völd stjórn sem ávallt legðist gegn öllu og það ekki bara einu sinni heldur alltaf.

Samgöngumál hafa verið fyrirferðarmikil og er það vel. Hér áður fyrr voru það fyrst og fremst landsbyggðarþingmenn sem tóku til máls þegar samgönguáætlun var til umræðu. Nú brenna samgöngumálin ekki síður á íbúum höfuðborgarsvæðisins. Hér hefur fólksbifreiðum fjölgað gríðarlega eða um 78% á síðustu 10 árum og eru nú orðnar 135 þúsund af 200 þúsund bílum. Hvernig ætla menn að bregðast við þessu á næstu 10 árum? Eins og R-listinn gerði í Reykjavík hér á árum áður, þ.e. að berja höfðinu við stein, staðnaður og algerlega kjarklaus til ákvarðanatöku, neita að viðurkenna að Íslendingar aka um á einkabílum og gera þar með ekki neitt? Eða eigum við að grípa til aðgerða sem taka mið af raunveruleikanum en ekki draumsýn um land án bíla? Ég fagna því sérstaklega tillögu meiri hluta samgöngunefndar um að leggja aukið fjármagn til frekari samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og tel raunar að meta verði hvort enn frekari framkvæmda sé þörf hér á næstu árum en nú eru ráðgerðar.

Góðir Íslendingar. Framfarir eru eilífðarverkefni. Við Íslendingar erum metnaðarfullir, við erum kappsamir og viljum áfram vera í fremstu röð þeirra landa sem við alla jafna berum okkur saman við. Til að svo verði áfram þarf að hafa kjark og dug til að taka ákvarðanir er leiða til fjölgunar tækifæra fyrir einstaklingana, fyrir fyrirtækin og fyrir fjölskyldurnar. Sú ábyrgð er mikil og það er ábyrgð sem við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir og þorum að axla áfram.