133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:25]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Góðir áheyrendur. Íslensk þjóð hefur blómstrað á undaförnum árum og góðæri og hagsæld hefur verið meiri hér á landi en áður hefur þekkst. Sú staðreynd er í raun óumdeild.

Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma er að tryggja gott atvinnuástand og sífellt betri lífskjör. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til því að laun einstaklinga hafa hækkað mikið, atvinnuleysi mælist nú aðeins rétt yfir 1%. Á sama tíma hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann að teknu tilliti til skatta og verðlagsþróunar aukist um hartnær 50% á síðasta áratug. Sú aukning er langt umfram það sem aðrar þjóðir geta státað af.

Íslenskum fyrirtækjum hefur vegnað vel, bæði hér heima og erlendis og vöxtur þeirra og útrás hefur kallað á fleira vel menntað starfsfólk með góð laun. Það er ánægjuefni þegar fyrirtæki ná slíkum árangri enda er hagur fyrirtækjanna um leið hagur þjóðarinnar.

Eins og áður segir er hagsæld og velmegun þjóðarinnar staðreynd sem ekki er deilt um. Hins vegar er deilt um hvort tekist hafi að skipta þeirri hagsæld með sanngjörnum hætti milli landsmanna allra. Þar sem við getum ekki öll fengið stórkostlegar hugmyndir, hrundið þeim í framkvæmd og grætt stórfé á skömmum tíma er öruggt að ákveðnir einstaklingar hafa hagnast meira en almenningur hefur almennt gert. Hins vegar hefur verkefni ríkisstjórnarinnar verið að gæta þess að allir njóti þess góðæris sem hér hefur verið á síðustu árum.

Nýjustu alþjóðlegar kannanir sem hér hafa verið gerðar hafa sýnst fram á að hagsæld á Íslandi hefur verið meiri en annars staðar í Evrópu. Þær hafa ekki aðeins staðfest það, þær hafa einnig staðfest og sýnt fram á að jöfnuður hér á landi hefur verið meiri en víðast hvar annars staðar. Þær hafa í raun staðfest að sú umræða um aukinn ójöfnuð og misskiptingu í þjóðfélaginu er röng og þær forsendur sem talsmenn þeirrar umræðu hafa notað eru einnig rangar. Þrátt fyrir háværa umræðu um stöðu aldraðra að undanförnu hafa þær kannanir og aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið einnig sýnt fram á að aldraðir hér á landi hafa það mun betra en jafnaldrar þeirra víðast hvar annars staðar. Má rekja það til þess að ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að koma hluta góðærisins til bæði aldraðra og öryrkja. Í því samhengi má nefna árangursríkt og vel heppnað samstarf stjórnvalda og Landssambands eldri borgara sem leiddi til sameiginlegrar yfirlýsingar og í kjölfarið breytingar sem skila munu öldruðum og öryrkjum um 30 milljörðum kr. í bættum kjörum á næstu fimm árum.

Frú forseti. Þær breytingar sem orðið hafa hér á landi á síðustu árum hafa leitt til þess að fyrirtæki hafa vaxið og dafnað og hagur þeirra hefur batnað. Um leið hafa tekjur ríkisins af starfsemi fyrirtækja aukist og það hefur gert mögulegt að lækka álögur á einstaklinga og heimilin.

Í nýlegri grein sem Guðjón Sigurðsson, formaður MND-samtakanna, ritaði í Morgunblaðið um stækkun álversins í Straumsvík segir Guðjón, með leyfi forseta:

„Ég er heimtufrekur á alla aðstoð frá bæjarfélögum og ríki, vil meiri og betri þjónustu,“ segir Guðjón um leið og hann hvetur til ráðdeildar í ríkisrekstri, áframhaldandi atvinnuuppbyggingar sem skila mun auknum tekjum til þjóðfélagsins. Ég tek undir með Guðjóni. — Góðar stundir.