133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

menntunarmál blindra og sjónskertra.

[10:32]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins til að ræða við hæstv. menntamálaráðherra um menntunarmál blindra og sjónskertra en því miður vannst ekki tími til að afgreiða svar ráðherra við fyrirspurn minni um efnið.

Þurfa blindir menntun? spyr Blindrafélagið, og ekki að ástæðulausu. Aðeins einn kennsluráðgjafi sinnir ráðgjöf við kennara um það hvernig kenna skuli um 100 blindum og sjónskertum nemendum á öllum skólastigum. Það sér hver maður að einn ráðgjafi til að sinna svo miklum þörfum hjá svo stórum hópi er hvergi nærri fullnægjandi. Þetta hefur legið fyrir nokkuð lengi en ágerst eftir að sérstök blindradeild var lögð niður í upphafi þessarar aldar.

Í upphafi þessa kjörtímabils skipaði hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfshóp til að fara yfir þennan vanda. Í ágúst 2004 skilaði starfshópurinn niðurstöðu. Meginniðurstaða starfshópsins var að stofna þyrfti þekkingarmiðstöð í málefnum blindra og sjónskertra til að aðstoða skólana við að kenna blindum börnum.

Síðan eru núna liðin þrjú skólaár og engin þekkingarmiðstöð er enn komin á fót. Hingað hafa komið erlendir sérfræðingar og sagt okkur að aðstöðuleysi blindra skólabarna sé hér einstætt miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. Hér sjáum við viðtöl við foreldra blindra barna sem taka fjölskyldur sínar upp með rótum og flytjast búferlum til annarra landa til að flýja vonda þjónustu okkar í íslenska skólakerfinu, ekki bara til Norðurlandanna heldur líka suður til Mið-Evrópu. Við hljótum að spyrja hvernig á því stendur að kerfið skuli enn ekki hafa brugðist við og að þremur árum eftir að starfshópurinn skilaði ráðherra niðurstöðunum sé enn ekki komin á fót sú stofnun sem óskað er eftir.

Nú er kjörtímabilið að verða búið. Hæstv. menntamálaráðherra hefur (Forseti hringir.) tvo mánuði til stefnu og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún muni fyrir lok kjörtímabilsins tryggja stofnun þekkingarmiðstöðvar til að þjóna þessum blindu skólabörnum.