133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

menntunarmál blindra og sjónskertra.

[10:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að hreyfa þessu máli. Ég hef eins og fram kom í máli hans reynt að svara fyrirspurninni hans en hann ekki séð sér fært að vera viðstaddur þegar svo var þannig að nú er kærkomið tækifæri til að fara aðeins yfir hið mikilvæga mál sem menntun sjónskertra og blindra er.

Það er rétt sem kom fram, nefnd skilaði tillögum á sínum tíma en það eru fleiri tillögur sem komu fram en eingöngu um þekkingarmiðstöðina. Eftir þeim hefur verið unnið og meðal annars var mikið fagnaðarefni þegar nokkrir aðilar, menntamálaráðuneytið, Reykjavíkurborg og síðan Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, komu sér saman um að fjármagna sérkennsluráðgjöf. En hvað segir þetta okkur, að þrír aðilar þurfi að koma að slíkum málum? Það segir okkur að þetta fer flest í gegnum kerfið og að margir aðilar þurfa að koma að þessu máli. Og það er miður þegar mikill vilji er til staðar innan kerfisins að við getum þá ekki náð að samþætta hlutina betur. Þess vegna er núna kærkomið tækifæri til að segja frá því þegar ég var á fundi í lok febrúar, mig minnir að það hafi verið 26. febrúar, þar sem mér voru kynntar m.a. niðurstöður í skýrslu frá erlendum sérfræðingum sem m.a. við styrktum Blindrafélagið til að fá hingað til lands. Það eru mjög athyglisverðar niðurstöður og koma heim og saman við margt það sem kom fram í nefndinni á sínum tíma.

Á þeim fundi voru líka borgarstjórinn, heilbrigðisráðherra og fleiri sem allir lýstu eindregnum vilja sínum til að fara í það að framkvæma. Þess vegna greip ég tækifærið og ákvað í samráði við m.a. Blindrafélagið að skipa nefnd, ekki bara eina nefndina enn, heldur framkvæmdahóp sem hefur það hlutverk að setja hlutina í þann farveg að þeir komist til framkvæmda. Hluti af því er þekkingarmiðstöðin sem hv. þingmaður kom inn á því að blindir, eins og allir aðrir í samfélaginu, eiga að fá sína menntun og það aðgengi að menntun sem við viljum að öllum einstaklingum sé skaffað hér á landi.