133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

menntunarmál blindra og sjónskertra.

[10:36]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hver er staðan í baráttu margra hópa fyrir réttindum sínum? Baráttu fatlaðra? Baráttu blindra og sjónskertra? Baráttu aldraðra, öryrkja? Hún er ákaflega dapurleg. Aldraðir eyða ævikvöldi sínu í baráttu fyrir réttindum sínum, blindir og sjónskertir verja drjúgum hluta skólagöngu sinnar á öllum skólastigum í baráttu við menntamálaráðherra íslenska lýðveldisins og íslensku ríkisstjórnina um að fá þá grunnþjónustu að þeir geti fengið lágmarksmenntun út úr skólagöngu sinni.

Staðan er einfaldlega sú að réttindi eru brotin á blindum og sjónskertum börnum og nemendum á öllum skólastigum. Sú er staða málsins. Það var líka staða málsins þegar hópurinn skilaði af sér fyrir þremur árum niðurstöðu um að það þyrfti þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta til að ráðleggja kennurum í skólum landsins. Síðan þá hefur ekkert gerst, sinnuleysi hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um málefni blindra og sjónskertra er með ólíkindum. Hæstv. menntamálaráðherra svaf á verðinum. Það eru þrjú ár síðan hópurinn skilaði af sér. Það eru tveir mánuðir þangað til kjörtímabilið er á enda. Það er þriðja kjörtímabil ríkisstjórnar þessara tveggja flokka og það er að sjálfsögðu áfellisdómur yfir stöðu málsins að foreldrar þurfi að flýja land með börn sín séu þau blind eða sjónskert og vilji þeir fá viðunandi menntun fyrir þau. Skólakerfið okkar hefur brugðist blindum og sjónskertum börnum. Sú er staða málsins í dag.

Hvað segir hæstv. menntamálaráðherra? Jú, að sjálfsögðu á að veita þeim sömu grunnþjónustu. Auðvitað á að gera það, en orðunum fylgja engar efndir af því að verkin tala yfir ríkisstjórninni sem er að fara frá eftir tvo mánuði. Sú er staða málsins og staðreyndin er að ekkert hefur verið gert í þessum málum þremur árum eftir að nefndin skilaði af sér. Þremur árum seinna er staðan enn þá sú að það er verið að brjóta réttindi á blindum og sjónskertum börnum á öllum skólastigum.