133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

menntunarmál blindra og sjónskertra.

[10:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eftir að vandinn hefur legið fyrir árum saman var skipaður starfshópur. Starfshópurinn vann og hann skilaði niðurstöðu og það leið eitt ár og það leið annað ár og það er að líða þriðja árið — og þá gerðist það. Það var skipaður annar starfshópur. Og eftir tvo mánuði er kjörtímabilið búið.

Ég trúi því sem hæstv. menntamálaráðherra segir, að hér séu mörg kerfi sem þurfi að vinna saman og það gangi illa og það taki tíma og margir beri ábyrgð og það sé flókið og hún sé öll af vilja gerð. Virðulegur forseti. Þegar kerfið er þungt og silalegt og þegar kerfið virkar ekki og þegar réttindi eru brotin, ekki síst á börnum, þarf einmitt að taka af skarið. Og þegar kerfið virkar ekki í menntamálum fyrir hina verst settu er það menntamálaráðherrann yfir Íslandi sem þarf að taka af skarið — og enginn starfshópur. Það sem menntamálaráðherrann á Íslandi þarf að gera áður en hann lætur af embætti eftir tvo mánuði er að gefa út um það yfirlýsingu hér í þessum ræðustól að hann muni sjá til þess að stofnuð verði þekkingarmiðstöð til að þjóna þessum börnum. Og fyrir menntamálaráðherra, ríkisstjórn, ríkissjóð og Alþingi er þetta smámál. Þetta er spurningin um 3–4 stöðugildi.

Fyrir þau börn sem hér eiga hlut að máli er þetta hins vegar stórmál og ekki síður fyrir aðstandendur þeirra. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að sýna sinn góða vilja í verki, og til að taka af öll tvímæli um það að því ástandi sem ég held að fólk úr öllum flokkum geti verið sammála um að sé ekki boðlegt ljúki, og þegar skólaárið hefjist í haust geti blind og sjónskert skólabörn treyst því að aðstoð verði hægt að sækja í þekkingarmiðstöð sem þjónar þeim.