133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

menntunarmál blindra og sjónskertra.

[10:48]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með enn einn starfshópinn. Það er bara búið að tala nóg, það er staðreynd málsins.

Núna, um mitt árið 2007, eru einstakir hópar fatlaðra Íslendinga að berjast dag hvern fyrir því sem er almennt viðurkennt sem grundvallarmannréttindi þeirra, þ.e. jafnt aðgengi á við aðra Íslendinga að skólagöngu og annarri grunnþjónustu í íslensku velferðar- og skólakerfi. Þetta eru sjálfsögð mál og þess vegna getur það ekki flokkast undir neitt annað en blaður að hlusta á það að stjórnvöld ætli að skipa enn einn starfshópinn, fá vilja þessara og hinna aðilanna og allir séu fullir af velvilja. Þetta er, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar sagði áðan, spurning um smáaura. Þetta er spurning um örfá stöðugildi, stærsta spurningin er hins vegar um pólitískan vilja. Þetta er spurning um pólitískan metnað íslensku ríkisstjórnarinnar til að búa þannig um hnúta að allir þessir hópar, hvort sem þeir eru blindir, fatlaðir eða skertir að einhverju öðru leyti, hafi jafnt aðgengi að samfélaginu á við okkur hin sem erum það ekki.

Við vitum að hv. þingmaður frjálslyndra og óháð nú, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, hefur flutt þingmál sitt um táknmálið og réttindi heyrnarlausra mörgum sinnum á Alþingi og við erum nokkur í salnum sem höfum flutt það með henni. Það er að sjálfsögðu verið að gera hana að aðhlátursefni með því að gefa henni vonir um það aftur og aftur að málið verði afgreitt úr menntamálanefnd því það verður það örugglega ekki. Það er ekki á dagskrá hinna 80 mála sem fyrir þinginu liggja í dag. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta mál, sem er eitt mesta mannréttindamál sem liggur fyrir þinginu, verði afgreitt úr menntamálanefnd. Það er ástæða til að nota tækifærið nú á síðasta opinbera starfsdegi þingsins til að skora á hæstv. menntamálaráðherra og forseta þingsins að beita sér fyrir því, að ég tali ekki um hv. formann menntamálanefndar, að málið verði (Forseti hringir.) afgreitt úr þeirri nefnd og málið verði gert að lögum.